Monday, May 11, 2009

 

Hér er........

súld og svínarí, en sól í Skagafirði, stendur í einni vísu Langa-Sveins. Það er hinn forni lokadagur vertíðar í dag. Skyldu sægreifarnir muna eftir deginum? Við Kimi höfum að mestu verið innandyra í dag. Svona drungi getur orsakað myglubletti á sálinni. En þeir verða ekki varanlegir því spá næstu daga er góð. Austanátt og sólskin með hlýindum. Kominn tími til eftir norðangarrann í síðustu viku.
Við fengum nýja ríkisstjórn í gær. Ég er hæfilega bjartsýnn á langlífi hennar. Það er líka afar sérstætt við stjórnarmyndun að flokkarnir séu nánast alveg á öndverðum meiði í stóru máli. Kannski var þetta eina lausnin sem til var til að ná samkomulagi.En SF er ólíkindaflokkur sem ég treysti svona mátulega. Vona samt að þessi stjórn nái árangri í endurreisnarstarfinu sem framundan er. Landið í rústum eftir óstjórn íhalds og framsóknar. Síðasta ríkisstjórn var nú ekki beysin heldur og þar ber SF mikla ábyrgð.
Á laugardaginn fór ég í bæinn að sjá Draumalandið. Þetta er merkileg og góð kvikmynd. Mér duttu margir pistlarnir mínir í hug. Pistlar, sem ég skrifaði þegar mest gekk á þarna fyrir austan.Þegar við verðum búin að virkja allt fyrir álfyrirtækin getum við framleitt 2.5 milljónir tonna af áli. Það er nákvæmlega magnið sem bandaríkjamenn kasta á haugana á hverju ári. Urða það án þess að endurvinna það. Þetta er nú ekki mjög falleg framtíðarsýn. En söngurinn heldur áfram. Það var ömurlegt að heyra í gömlu draugunum. DO á spalli við Bush. Valgerður og Dóri himinsæl. Aumast fannst mér að fylgjast með hátíðahöldum austfirðinga. Hinni blindu trú á Alcoa. Bjargvætt fólksins. Einn er með einkanúmerið ALCOA á bílnum sínum. Ætli dætur þessa fólks fái ekki nafnið líka? Hvert starf í þessu álveri kostaði yfir 200 milljónir króna. Landsvirkjun er nú á hvínandi kúpunni.Nokkur hundruð íbúðir auðar á svæðinu. Það skiptir auðhringinn auðvitað engu máli. Meðan arðurinn rennur úr landi fyrir smánarlegt rafmagnsverð er þessi góðgerðarstofnun ánægð. Þetta er allt saman óhugnanlegt og það verður að breyta um stefnu. Kannski mál til komið að SF rifji upp svik sín um Fagra Ísland og reyni að koma því á flot aftur.
Ég er að spá í sjóstangaveiði þann 19. Lögmannafélagið ætlar í róður á fengsæl mið á Faxaflóa. Maður lætur nú ekki mikið eftir sér í kreppunni. Þetta er þó gamall draumur. Kannski ætti ég bara að drífa mig? Kveðjur frá leitidraugunum í Ástjörn 7, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekki spurning að þú skellir þér í þetta. Ég veit svosem ekki hvað þetta kostar, en ef þú færð að hirða aflann þinn þá er þetta nú varla mikið dýrara en að fara í Fiskbúðina eftir flökum. Aðalmálið er þó að ég held þetta sé þrusugaman. Á í hverju kasti þegar hann fer á annað borð að taka, kannski 15 punda golþorskar inn á milli. Jamm. Þú heiðrar minningu hennar Önnu ömmu okkar systkinanna með þessum túr þann 19. maí. Ekki spurning.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online