Thursday, May 14, 2009

 

Sumarþankar.

Það er sólskin og blíða. Þrettán gráður og rokið á undanhaldi. Græna þruman aldrei flottari en nú eftir sápuþvott í morgunsárið. Litbrigðin í sanseruðu lakki verða margbreytileg í sólskininu. Þegar ég lagðist í flet mitt klukkan hálftólf í gærkvöldi var enn allbjart og albjart þegar ég vaknaði aftur um klukkan 5. Dýri kann sér ekki læti yfir dásemdum tilverunnar hér fyrir utan blokkina. Ég lét loks verða af að hringja í lögmannafélagið í morgun. Sá mjög góða spá fyrir þriðjudaginn og nú er bara að hlakka til. Vonandi verður sá guli við. Ufsinn þykir geysilega skemmtilegur á stöngina og hann getur orðið mikill að vöxtum. Svo er það auðvitað ýsan, soðningin sjálf. Ég bauð Magnúsi með mér og hann varð kátur. Tjáði mér að hann hefði fengið steinbít í fyrra og það hefði ekki verið mjög leiðinlegt. Þegar ég var smápolli veiddi ég oft kola á bryggjunni í Þorlákshöfn. Stöku marhnútur gæddi sér líka á beitunni. Bjarni Sæmundsson sagði að það væri góður matfiskur en ekki étinn.Það er semsagt kominn fiðringur í gamlan veiðimann. Nú er ég kominn með Garmin leiðsögutæki í þrumuna og verð ekki í vandræðum með að rata á nýjar veiðislóðir í sumar. Í tækinu er bæði Evrópukort og Íslandskort. Þetta er ótrúlega snjallt og jafnvel tækniauli eins og Hösmagi var fljótur að læra á það. Það er létt yfir okkur Kimi. Hann er nú lagstur hér á borðið og finnst ekkert eðlilegra. Mal og kumr yfir samveru með fóstra sínum. Tími Hösmaga er kominn. Hin nóttlausa voraldarveröld er að ganga í garð. Landið mitt eins og það er dásamlegast. Ég ætla að njóta þess út í ystu æsar á næstunni. Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online