Wednesday, May 06, 2009

 

Hljómkviða.

Það er ljúft að leggjast í flet sitt á kvöldin. Sérstaklega er notalegt ástandið þegar undirvitundin marar í hálfu kafi og maður veit varla hvað er raunveruleiki og hvað er draumur. Milli svefnsins og vökunnar. Svona var þetta eitt kvöldið fyrir nokkrum dögum og þá heyrði ég lágan tón. Svo hækkaði tónninn og varð að mikilli hljómkviðu. Hvað var að gerast? Það var slökkt bæði á útvarpi og sjónvarpi. Augnablik duttu mér aliensarnir í hug. Höfðu þeir stofnað kór til höfuðs mér? Ég steig uppúr mókinu og Raikonen þaut fram til að forvitnast um þessa symfóníu. Hljóðin bárust frá tölvunni sem ég hafði skilið eftir í gangi. Þetta gæti hafa verið lag úr væntanlegri júróvísjón keppni. Ég slökkti og hvarf fljótlega aftur í land rænuleysis og drauma. Ég kann ekki skýringu á þessu en þetta hefur endurtekið sig tvisvar sinnum. Ég hlustaði á allt lagið í fyrradag og fannst það bara nokkuð gott. Líklega niður ársins 2009 en ekki aldanna eins og í Bergshúsi forðum.
Það er dásamlega fallegt veður. Sólin komin hátt á loft og lognið hefur öll völd. Hitastigið er komið rétt uppfyrir frostmarkið. Það vantar svona 15 gráður í viðbót.
Nú virðist margt benda til nýs stjórnarsáttmála um næstu helgi. Samfylkingin hefur tapað orustu. Það var nánast öllum ljóst að SF og VG gátu ekki náð samkomulagi í ESB málinu. Það er þó líklegt að það verði áfram á dagskrá og verði útkljáð með einhverjum skynsamlegum hætti á næstu misserum. Kapp er best með forsjá. SF og VG eru ekki öfundsverðir af þeim verkum sem framundan eru. Landið í rjúkandi rústum eftir sjálfstæðisflokkinn. Það sem ég óttast mest er að ríkisstjórnin sé í heljargreipum alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Saga hans og verk hræða. Passar upp á hagsmuni sinna. Við eigum enn okkar auðlindir en það eru margir sem renna hýru auga til þeirra. Vonandi tekst okkur að verja þær og komast smátt og smátt út úr verstu hremmingunum. Við bíðum og vonum hið besta.
Ég hef verið með nokkrar í takinu undanfarna daga. Ekki alveg dauður úr öllum æðum. Eða þannig. Ég er að tala um bækur. Lauk við Kuðungakrabbana í gær. Anne K. Rogde er ágætur höfundur. Fyrr í vetur las ég Berlínaraspirnar. Þriðja bókin hlýtur að vera á leiðinni. Þetta er saga Neshov fjölskyldunnar sem er arfaklikkuð. Með smá undantekningum. Nú hefur ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku tekið við og rökkurópera Þórbergs er á náttborðinu. Skelfing væri nú tilveran fátækari ef engar væru bækurnar. Ég hlakka til lesturs margra góðra bóka í elli minni. Þær gleðja við öll tækifæri. Reka burt kvíða og eru líka góðar þegar rólyndi hugans hefur völdin.Raikonen hefur lagt loppu yfir haus sér. Nú legg ég mig aftur og gríp í Þórberg. Bestu kveðjur krúttin mín kær, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online