Sunday, May 31, 2009

 

Fúll á móti.

Ég er hundfúll. Ég er á móti íhaldinu. Og framsókn. Svo er ég enn meira fúll út í samfylkinguna. Og andskoti fúll út í vinstri græna. Ég er rosalega fúll út í Evrópusambandið. Ég þoli ekki Össur, Árna Pál, Jóhönnu, Dag né restina af þingmannaliði SF. Ég þoli ekki Jón Bjarnason, Árna Þór Sigurðsson né ýmsa aðra í VG.Þetta er nú meiri fýlan svona á Hvítasunnudegi. Mér finnst enn vænt um Guðfríði Lilju, Ásmund, Atla og Ögmund. Þetta er alveg voðalegt ástand.Það breytist ekkert við nýja ríkisstjórn. Tími Jóhönnu og Steingríms er liðinn. Þau munu samt stritast við að sitja eins og Njáll forðum. Á fundi í Háskólabíó rétt fyrir kosningar var Steingrímur spurður út í verðtrygginguna. Hann sagðist vilja afnema hana og fékk lófaklapp fyrir. Nú er hann fjármálaráðherra og var að hækka vindlana mína, blessað brennivínið og bensínið á bílana mína. Lánin hækkuðu um 8 milljarða í leiðinni af þessum sökum. Verðtryggingarþjófnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.Það er engin ný hugsun hjá þessari voluðu ríkisstjórn. Aðgerðirnar eru bara til að hleypa illu blóði á þá sum kusu stjórnarflokkana. Nema auðvitað sauðina sem allt láta bjóða sér. Svo er mér líka meinilla við bæjarstjórnina hér í Árborg. Það er alveg hroðalegur söfnuður. Sumir jafnvel vitlausari en Jón forseti. Varla hægt að komast mikið neðar. Meirihlutinn reynir að bera sólskinið í fötum inní Ráðhúsið. Svo botnar hann ekkert í öllu myrkrinu innandyra. Þegar andstæðingar þessa alræmda meirihluta reyna að koma vitinu fyrir hann þá er forsetinn mikli látinn skrifa grein í blöðin.Góð og gild rök andstæðinganna heita skætingur á máli forsetans. Skólarnir á Árborgarsvæðinu tóku ekki þátt í Skólahreysti í vetur. Það var ekki til aur til að borga rútu undir krakkana í bæinn. Á sama tíma styrkti meirihluti bæjarstjórnarinnar merarkóngana hér um margar milljónir. Svo veltast þeir um og brosa breitt í sjálfumgleðinni. Kannski er ég óhæfur til dvalar í mannlegu samfélagi vegna réttlætiskenndar sem sífellt er að flækjast fyrir mér.
Það er mikið grasveður hér. Miklar regnhvolfur annað slagið og svo skín sólin inná milli. Hún fer ekki í manngreinarálit og dembir sér yfir rangláta og réttláta í senn. Síðasti dagur maí í dag og unaðslegasti árstíminn framundan. Mörg tilhlökkunarefni þrátt fyrir voluð og vond stjórnvöld. Silungur og lax í sjónmáli með tilheyrandi útiveru. Mest hugsa ég þó um komu nýs barnabarns í heiminn. Það verður indælt þó heimurinn sé eins og hann er. Ég ætla að halda fýlunni í skefjum það sem eftir lifir dagsins. Kimi tollir ekki inni þó hann helli svolítið úr sér. Við höfum það ljúft saman. Ég ætla að leggja mig aftur og láta mig dreyma. Eitthvað fallegt í ógleymi rænuleysisins. Við rauðstakkar sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, þessi byrjun verður nú að teljast heimikil vonbrigði. Ekki síst þessi leið að hækka verðið á mest keyptu neysluvörunum á eftir brauði og mjólk, með þeim afleiðingum að ofurskuldsett íbúðahúsnæði tekur enn á sig. Skárri væri þó skattahækkun án þessara hliðarverkana.

En náttúran sér um þetta fyrir okkur. Samtals yfir 70°hér í Edinborg síðan á föstudag, sem telst gott þegar deilt er með þremur. Svo fer laxinn að ganga og þá hlýtur geðið í guðsvöluðum stjórnmálamönnum að taka stakkaskiptum. Bestu kveðjur frá Skotlandi, Sössi Bjössi
 
Ljótt er það. Verra verður það nú samt ef Eyþór Arnalds kemst alla leið og fer að stjórna þér og samborgurum austan fjalls. Þá bíður maður bara eftir því að Bubbi verði hreppstjóri í Kjós. Gott ef maður myndi þá ekki fara að sniðganga að aka um þessi umdæmi.

Einhvers staðar verður nú samt að skera. Hljótum frekar að vilja ljúka þessu af núna en að þetta endi á börnunum okkar og barnabörnum. Þá skárra að hækka á óhollustu og umhverfisspilltu bensíni en á raunverulegum nauðsynjavöru. Mættum raunar gera meira af því að beita neyslustýrandi sköttum.

Annars er ég ekki nógu vitur í hagfræði til að átta mig á því hvort þetta sé skynsamlegt út frá svoleiðis sjónarmiðum eða ekki.

Það má hins vegar gagnrýna þessa ríkisstjórn fyrir að skera ekki nóg. Ekkert betra að fresta því þangað til síðar eða velta því yfir á næstu kynslóðir.

En óháð þessu þrasi öllu þá vorar nú samt alltaf. Jafnvel eftir styrjaldir og stríð. Og svo kemur sumarið. Fiskiflugur og spói og hrossagaukur. Það lifir þetta allt saman af.

Bæjarpólitíkusar og ríkisstjórnir eyðileggja ekki þann yndisleik fyrir manni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online