Thursday, April 30, 2009

 

Pattstaða.

Það er sérstakt, að eftir að SF og VG náðu hreinum meirihluta í kosningunum, er komin upp pattstaða í stjórn þeirra. Það er sorglegt og slæmt. Ef flokkarnir leysa ekki ágreining sinn í dag verður hvor þeirra um sig að fara aðrar leiðir. Forystufólk beggja flokka segir reyndar að ekkert liggi á því flokkarnir hafi traustan meirihluta.Verkefnin sem bíða eru þó svo brýn að það má ekki eyða tíma í deilur sem virðist ekki vera hægt að leysa. Það er a.m.k. lágmarkskrafa að tekið verði til óspilltra málanna við lausn þeirra. Annars er ég að fá pólitískan leiða. Nenni varla að eyða orðum að þessu meira að sinni. Gleðin yfir falli íhaldsins er að verða blendin. Það yrði hroðalega slæm niðurstaða ef sigur stjórnarflokkanna kallaði á atbeina íhaldsins vegna innbyrðis deilna þeirra. Kannski kallar þetta ástand á nýjar kosningar. Kosningar sem kölluðu fram skýrari afstöðu fólks um hvort sækja eigi um ESB aðild eða ekki.
Kimi sefur. Með óvenjugljáandi feld. Þetta nýja íslenska fóður virðist gera honum gott. Mér finnst þetta frábært, einkum og sérílagi þegar við þurfum að spara gjaldeyri sem aldrei fyrr. Við íslendingar höfum áður staðið í erfiðum aðstæðum. Það er mikilvægt að nota frjóa hugsun til að vinna okkur út úr núverandi vanda. Það er vel hægt og vonandi næst samstaða um það.
Það er aukadagur í næstkomandi helgi. Veðurspáin ekkert sérstök og Ingólfsfjall með hvítan koll eftir nóttina. Það getur þó varla verið langt í alvöruvor og sumar. Ég ætla að hlakka til dásemda veiðiskapar og útiveru og gleyma pólitíkinni næstu daga.Á sunnudaginn ætla ég með Ingu systur minni og fleira góðu fólki uppí Haukadal. Gróðursetja þar nokkrar plöntur í lundi Gunnars frænda míns. Það er líka nóg að starfa heima fyrir. Nokkur framtöl eftir og alltaf þarf að halda í horfinu innandyra.Ég eignaðist 5 kíló af humri í gærkvöldi og ætla að gera okkur Dýra gott í munni á morgun. Svo er rakið að eiga humar til grillunar í Veiðivötnum og við önnur góð tækifæri í sumar. Kistan er nú sneisafull af mat. Nú kaupi ég bara mjólk, kaffi, brauð og viðbit. Og svo auðvitað lífdrykk minn nú um stundir, Coka Cola. Það er bara bjart yfir mér og dýrinu mínu. Við sendum bestu kveðjur með von um að friður ríki í hjörtum vina okkar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það er nú gott að heyra að bjart sé yfir ykkur Dýra. Ekki laust við að nokkur söknuður til íslenskra vatnasvæða hafi gripið um sig í brjósti undirritaðs á síðustu dögum og tilhlökkun til undra sumars á öllum vígstöðvum. Ég er á góðri leið með að fullbóka fyrstu viku júlímánaðar í veiðiskap, ljúka þessu af ef svo má segja á meðan enn er óhætt að vera að þvælast uppi um fjöll og firnindi. Fullsæll, Apavatn, Brúará, Búrfellsvatn og ef til vill fleiri staðir verða prófaðir þessa viku, enda mun ég að einhverju leyti halda til í sumarhýsi á þessum slóðum. Ert þú annars eitthvað í ánni um þetta leyti?

Edinborg er býsna góð um þessar mundir og bætir vel upp Íslandsfiðringin. Vötnin uppi á Pentlantshæðum bíða óþreyjufull komu okkar Sigurðar Grétars eftir u.þ.b. tvær vikur. Bestu kveðjur á Selfoss, SBS
 
Er kominn á þá skoðun að draumastaða VG sé að við horfum á grasið spretta og borðum það svo þegar það er orðið grænt. Framkvæmdir bannaðar. Þetta er afturhaldsflokkur dauðans. Vilja í stjórn og svo er status quo.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online