Friday, April 10, 2009

 

Lambasteik.

Mér áskotnaðist lambalæri um daginn. Lærið var ættað úr Selvoginum.Það er dulúðug sveit með sterka strauma. Gæti verið arfleið Eiríks í Vogsósum. Hann vissi lengra nefi sínu og er kunn sagan þegar hann festi ungan svein á hross sem hann hafði bannað pilti að ríða. Stráksi var ráðagóður og skar setuna úr buxunum og komst af hrossinu. Eiríkur sá að þetta var mannsefni og gerði gott úr öllu saman. Ingibjörg systir mín lánaði mér emilerað eldunarbox um daginn. Ég ákvað að gera tilraun í eldamennskunni. Fyrst kryddaði ég lærið að neðanverðu með salti og frönsku sveitakryddi. Snéri því svo, saltaði aðeins, og hellti olívuolíu yfir. Síðan kom meira sveitakrydd og að lokum reyksalt, Hicory. Lokið á, boxið inní ofninn og svo var kynnt á 200°. Eftir 70 mínútur kíkti ég í boxið. Þetta leit vel út. Kartöflurnar fóru í pott og ég lækkaði kyndinguna í 150°. Að tuttugu mínútum liðnum slökkti ég á ofninum. Lærið leit sérlega vel út. Hæfilega brúnt og ekki spillti ilmurinn. Ég er að springa úr monti yfir þessu verki. Lærið reyndist sérstaklega ljúffengt á bragðið og vel meyrt og safaríkt. Að sjálfsögðu réðist ég fyrst á hækilinn ásamt þrem þunnum sneiðum. Rauðar íslenskar og rabarbarasulta. Ég er enn pakksaddur af þessum dásamlega veislumat og hér eftir kvíði ég ekki fyrir að elda lambalæri. Harðfiskurinn bíður kvöldsins og ég ætla að lofa vini mínum að rífa vel í sig með mér.
Ég er nýkomin heim úr bíltúr. Þruman gljáandi græn eins og vinstra vorið sem er í nánd.Kíkti á bátana í höfninni í Þorlákshöfn og ók síðan upp Ölfus, í Hveragerði og heim á Selfoss. Drakk kaffi hjá Grétu og svo beint á netið þegar heim kom. Raikonen sofandi í húsbóndastólnum í stofunni. Það var vel við hæfi. Nú fylgist maður með hvað næst gerist í tagedíu íhaldsins. Þetta er sannarlega leikhús fáránleikans. Dostojevskí bliknar í samanburðinum. Það er ekki hægt að höndla þetta. Öll sund eru lokuð og engin leið fær til að ljúga sig frá skömm spillingarinnar. Og hin fræga kosningamaskína íhaldsins mun ekki duga í þetta skipti. Fnykurinn er hrikalegur og norðangolan nær ekki að koma honum burt. Þetta er bara bráðskemmtilegt.
Dýri var að skila sér inn. Hann er nú með fésið á kafi í harðfiskinum. Mikið mal bráðum. Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online