Monday, April 27, 2009

 

Eftirþankar.

Kominn mánudagur og þjóðin hefur kosið. Íhaldið fékk ærlegan skell þó hann hefði mátt vera enn meiri. SF og VG hafa þokkalegan meirihluta á þingi. Saga til næsta bæjar. En strax í gær kom í ljós að það er mjög óvíst um samstarf þessara flokka. VG jók fylgi sitt um yfir 50%. Það gerði flokkurinn einnig 2007 og er nú kominn með 14 þingmenn í stað 5 fyrir 2 árum. SF hefur minna fylgi nú en 2003. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Það er sorglegt hvernig úrslit þessara kosninga eru túlkuð af hörðustu fylgismönnum ESB. Af hverju má ekki fara lýðræðislega að þessu eldheita deilumáli?Það er alls ekki sjálfsagt að sækja um aðild og það er líka fráleitt að kanna ekki bestu leiðina til þess. Þingflokkar SF og VG þinga í dag. Spá mín er sú, þrátt fyrir afgerandi vinstri sigur, að það verði afar erfitt að mynda ríkisstjórn. Það varð ljóst eftir þáttinn með forustumönnum flokkanna í gærkvöldi. Jóhanna sagðist hafa marga kosti til stjórnarmyndunar. Hún hefur stillt VG upp að vegg þrátt fyrir að það er fyrst og fremst fylgisaukning þess flokks sem nú hefur orðið til þess að í fyrsta sinn í sögunni er möguleiki á 2ja flokka vinstristjórn. Nú eru mörg gífurlega brýn verkefni framundan. Samt kemst ekkert annað að hjá SF en að sækja strax um ESB aðild. Lettland hefur verið 5 ár í ESB og enn eru mörg ár í evruna hjá þeim. Á Spáni er nú 17% atvinnuleysi og spánverjar leita að leiðinni til baka. Það er mjög auðveld leið til að kanna kosti og galla við aðild án þess að sækja um hana strax. Það á að ná lýðræðislegri sátt um aðferðina en ekki að æða áfram í blindni.Klisjan um að við verðum að kanna hvað í boði er með umsókn er eins og útslitinn geisladiskur.Í fyrsta lagi vitum við það í stórum dráttum og í öðru laga er hægt að komast að raun um það án umsóknar. Þessi mál munu skýrast í dag og næstu daga. Það þarf að leggja ofstækið á báða bóga til hliðar. Það væri mikill óvinafagnaður ef þessi sögulegu úrslit kosninganna klúðruðust. Það er þó því miður veruleg hætta á því.

Það er geysilega fallegt veður. Frekar svalt en sólin skín. Við Kimi hressir að venju eftir letilíf helgarinnar. Afmælisdagur Gunnars frænda míns sæla og ég ætla að skreppa til systur minnar að áliðnum degi. Vonandi fer að styttast í arfablíðu. Reiðhjólið Faxi er klárt í bílskúrnum og Herconinn að verða ansi óþolinmóður.Bestu kveðjur frá rauðliðunum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Lýðræðislegasta aðferðin hlýtur að vera sú að þjóðin fái að kjósa um þetta. Til þess þarf að fara í viðræður. Þeim fylgir ekki skuldbinding um aðild. Ég get ekki, frekar en flestir, tekið afstöðu til inngöngu fyrr en viðræður eru farnar af stað og það er alls enginn klisja eða útslitinn geisladiskur að halda því fram. Hvernig á fólk að fá að vita hvað er í boði nema um það sé rætt? Það er mun lýðræðislegra að fara í viðræður sem að gefa þjóðinni færi á að meta stöðuna heldur en að aftra þeim á flokkspólitískum forsendum. Skil ekki hvernig er hægt að halda öðru fram.

Staðreyndin um Spán er svo sú að þótt þar séu erfiðleikar eins og nánast alls staðar þá hefur þjóðin breyst úr því að vera ein fátækasta Evrópuþjóðin fyrir aðild í að vera ein af þeim ríkari eftir aðild. Ég hef séð breytinguna með eigin augum.

Ég tek fram að ég er alls ekkert fyrirfram búinn að ákveða að greiða atkvæði um inngöngu og myndi aldrei gera það í blindni, nema síður sé, en það er að mínu mati ekki heillavænlegt að alþingisflokkar útiloki að þessi eða önnur leið verði farin í stjórnmálum landsins með því að neita fólki um að fá að kjósa um það. Það er ólýðræðislegt.

Engin ríkisstjórn fær á endanum ráðið því hvort við göngum inn í sambandið eða ekki. Það er því alls ekki verið að neyða Vinstri græna í að samþykkja aðild að sambandinu þótt krafan um viðræður verði lögð fram.
 
Það sem ég er að segja er að það er auðvelt að fara í viðræður án aðildarumsóknar. VG hefur margsagt að þjóðin eigi að fá að kjósa um málið. Fólk greinir á um aðferðafræðina. Hún verður að ráðast með lýðræðislegum hætti með samkomulagi sem allra flestra en ekki á forsendum SF einum saman.Enda hafa 2 kannanir á þessu ári sýnt að enn eru fleiri íslendingar á móti aðildarviðræðum en með þeim. Þetta mál virðist vera að taka sess hersetumálsins á sínum tíma. Það klauf þjóðin í marga áratugi. Sem betur fór er það er úr sögunni. ESB málið þarf að leysa af skynsemi, heilindum og réttlæti. Alls ekki með óðagoti og hroka. Aðildarumsókn nú leysir ekki bráðavanda okkar.Það getur vel verið að við gerumst aðilar einhverntíma síðar. Norðmenn virðast sáttir og hafa ítrekað fellt aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst fyrir 37 árum. Aðdragandi þessara kosninga hefur ekkert með ESB að gera. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum eftir hrunið af völdum sjálfstæðisflokks og framsóknar með dyggri aðstoð SF undir lokin. ESB þarf þó að skoða vandlega eftir vitræna umræðu og miklu meira hlutlaust upplýsingaflæði.Þessar kosningar snérust ekki um aðild að ESB þó sumir telji sér henta að halda öðru fram. Það má líka benda á að VG ályktaði á nýafstöðnum landsfundi að hagsmunum okkar væri betur borgið utan ESB og juku fylgi flokksins um yfir 50%. Það er því óeðlilegt að að flokknum sé stillt upp við vegg í þessu máli.Það finnst farsæl lausn. Enginn vafi á því.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online