Thursday, April 23, 2009

 

Sumarkoma.

Gleðilegt sumar, krúttin mín kær. Það var nú ekki sumarlegt að kíkja út í morgun. Mugga, og Ingólfsfjall alhvítt. En veturinn er að baki og nú er það beina brautin framundan. Tveir dagar í kosningar og málin að skýrast. Ég kom við hjá VG í gær. Það jaðraði við að ég hrykki öfugur út úr dyrunum. Það var sem sé meistarinn mikli sem blasti við fyrstur manna. Hann er sem betur fer ekki á framboðslistanum svo ég fer á kjörstað. En það er alveg öruggt að VG fær ekki mitt atkvæði í næstu sveitarstjórnarkosningum. Ætla ekki að verðlauna núverandi bæjarfulltrúa fyrir "vel unnin störf". Nóg um pólitíkina í dag.
Í síðustu viku brá ég mér í bíltúr uppí Gímsnes. Á Lancelot hinum bláa. Ekki í frásögur færandi og leiðangurinn gekk ágætlega. Ég lagði vagninum fyrir framan bílskúrinn. Daginn eftir neitaði þessi rennireið að vakna. Ég hringdi í Hörð eftir hádegið. Hvað annað? Hann kom svo eftir vinnu og komst að því að kveikjan sendi ekki neista niður í kertin svo það kviknaði ekki í bensínblöndunni. Daginn eftir fór ég sérstaka ferð í bæinn og fékk notaða kveikju í Vöku. Snillingarnir þar létu mig hafa kveikju sem passaði ekki. Daginn eftir fórum við Maggi í Tangavatn. Þangað hringdi Hörður bílameistari og var búinn að finna gamlan Lancer út á túni niðri í sveit. Hann fékk kveikjuna úr honum. En Lancelot var áfram andvana. Hörður svaf á þessu dularfulla máli um nóttina. Eftir vinnu á þriðjudag fórum við í sveitina og sóttum tölvuna úr vagninum sem lagt hafði verið. Í henni er heilinn sem stjórnar kveikjunni. Hörður var snöggur að skipta um og nú fór Lancelot að mala eins og Rakonen í dyngju sinni. Hann hafði semsagt orðið fyrir snögglegri heilabilun við bílskúrinn í Ástjörn 7. Eins gott að það henti ekki Hösmaga sjálfan. Gamli Lancerinn er með stóra sál eins og flestir mínar bílar um dagana. Nú á ég varakveikju og get örugglega fengið restina af þeim gamla í túnfætinum í Villingaholti. Ég mun líka þekkja galdramanninn góðkunna áfram. Það er nú ekki ónýtt þegar þarf að notast við gamla og lúna vagna.
Eiturbyrlarinn minn átti afmæli í fyrradag. Hann hafði fengið gott að borða hjá Boggu sinni en það var öllu verra með púlarana. Æ. æ. Og mér sem er svo nákvæmlega sama um ensku knattspyrnuna. Kannski bara einn af örfáum. Svo verð ég líka bráðum eini íslendingurinn sem ekki er á facebook.Fyrr um daginn var ég í málflutningi í héraðsdómi Suðurlands. Djöfull var ég nú myndarlegur í lögmannaskikkjunni.Held að mér hafi tekist nokkuð vel upp og ég fái góða niðustöðu í málið á morgun.
Ég er glaður í dag og mér sýnist Kimi vera það líka. Eigum hvorn annan að. En það er líka fleira sem gleður hjarta gamals veiðimanns. Ljúfar minningar rifjuðust upp fyrir skömmu. Fiturönd á lambalundum og heitt handklæði eftir baðið í dögginni á Jónsmessunótt. Það sem aldrei hefur komið fyrir áður skeður örugglega í sumar. Nú er fjallið aftur orðið autt upp í miðjar hlíðar. Sumarið er að koma. Ástarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þessi saga af herra Lancelot minnir nú bara á dularfullt mál á bílaverkstæði herra JLB Matekonis, Spíttmótorum. Sumarkveðjur frá Edinborg, SBS&HS
 
Gleðilegt sumar gamli minn. Vona að línur strengist meira í sumar en í síðustu ferðum okkar.
 
Þakka góðar kveðjur. Gamle far er ávallt stoltur af börnunum sínum.Lancelot fékk nýja tímareim í gær. Hjá Harðar Spíttmótorum.Ég gæti trúað að þar hafi verið sett nýtt heimsmet. Það er verulegt rifrildi að skipta um tímareim í Lancer. Hr. H.Ó. forstjóri lauk verkinu á klukkutíma. Segi og skrifa 60 mínútum. Samkvæmt tilboði frá einu bílaverkstæði átti þetta verk að kosta 30.000 kr. Það er gott að eiga góða vini í kreppunni. Og línur okkar feðga munu strengjast í sumar. Það er jafnöruggt og afhroð íhaldsins í kosningunum í dag.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online