Monday, April 06, 2009

 

Veröld Hösmaga.

Það er gott að vita til þess, að bloggi ég ekki í nokkra daga, skuli einhver taka eftir því. Veröld mín er söm og áður. Alsgáður og nokkuð hress. Barasta fjallhress svona ámóta og Dýri. Hann sækir nú fast að láta hleypa sér út á morgnana. Það er merki um að það er tekið að vora. Sem er ákaflega ljúft. Páskar að ganga í garð og og veiðifiðringurinn gerir vart við sig. Herconinn bókstaflega mændi á mig í bílskúrnum í morgun. Ég fullvissaði þessa veiðistöng um að hún skyldi vera við öllu búin. Þarf að hringja í Magga og huga að Tangavatnsför. Margir frídagar á næstunni Af spánni að dæma verður sæmilega hlýtt og þurrt næsta laugardag og alveg rakið að athuga málið.Nú er verið að massa framstuðarann á grænu þrumunni. Mér finnst voðalega ljótt að nudda sér utan í svona fínan vagn og stinga svo af frá glæpnum. Í rauninni eins og þjófnaður því ég verð að draga upp veskið og borga. Ég myndi lesa þeim seka pistilinn vissi ég hver hann væri.Og skæfi ekki utanaf því.
Formenn stjórnmálaflokkanna voru í kastljósi á föstudaginn.Ég var nokkuð hissa á hve hinn nýi formaður sjálfstæðisflokksins var slappur. Hugmyndafátæktin áberandi.Lausnin í atvinnumálum ný álver í Helguvík og á Bakka. Gjafarafmagn frá Landsvirkjun sem er nánast gjaldþrota eftir Kárahnjúka. Álverð í lágmarki. Væri ekki nær í bili að veiða meiri þorsk. Hundrað þúsund tonn af þorski gefa 40 milljarða. Þó vísindastofnanir séu ágætar verðum við líka að hlusta á sjómennina. Þó mikill ágreiningur sé milli VG og SF um evrópubandalagið er ég samt viss um að þessir flokkar munu starfa saman að kosningum loknum. Og SF mun alls ekki setja VG stólinn fyrir dyrnar út af þessu máli. Jóhanna lýsti því líka yfir að ekki yrði sótt um aðild strax eins og Dagur fullyrti. Það verður að hafa hemil á ofsatrúarfólkinu. Bæði þeim sem telja að allar okkar raunir gufi upp við aðildarumsókn og hinna sem berjast gegn málinu af einhverskonar þjóðrembingshætti.Það eru allir stjórnmálaflokkar klofnir í þessu efni og þjóðin þar með. Ég vona sannarlega að VG muni vinna þann sigur í kosningunum sem allt bendir til. Það eru allt of margir vafagemlingar í samfylkingunni. Verði sigur vinstri grænna nógu stór eru miklu meiri líkur á að réttlætið nái fram að ganga í samfélaginu. Unga fólkið sér þetta best. Það er ánægjuleg staðreynd í veröld Hösmaga.

Ég ætla í afmæli í dag. Fyrrum sambýliskona mín, Gréta, er fimmtug. Ég var einu sinni yfir mig ástfanginn af henni. Nú hefur góð vinátta orðið aðalatriðið. Það er gott. Við vinstri rauðir sendum öllum vinum góðar kveðjur. Og kjósið nú rétt, skinnin mín, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ég þakka skjót viðbrögð! Bið að heilsa Grétu, Sössi Bjössi
 
While I surf blog , i found a all new trick in http://pic-memory.blogspot.com/Vistor can comment and EMBED VIDEO YOUTUBE , IMAGE. Showed Immediately!
EX : View Source.
http://pic-memory.blogspot.com/2009/02/photos-women-latin-asian-pictu...(add photos and videos to Blogspot comments).
Written it very smart!
I wonder how they do it ? Anyone know about this , please tell me :D
(sr for my bad english ^_^)

email: ya76oo@ya76oo.com
thanks.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online