Tuesday, April 07, 2009

 

Tölurnar.

Það er alkunna hvað Hösmagi unir sér við talnakúnstir. Áhugi minn á tölum er örugglega meðfæddur og ég man varla eftir mér nema teljandi alla skapaða hluti. Ég reiknaði út um daginn að þann 30. mars urðu Helga Soffía og Raikonen fertug.Það var bara einföld samlagning. En afmæli geta að sjálfsögðu orðið utan afmælisdaga. Þannig hef ég komist að því að þann 16. september n.k. verðum við Dýri 7tugir. Samanlagður líftími 70 ár. Mér finnst eiginlega við hæfi að stefna á veislu þennan dag. Einskonar karnival til heiðurs okkur fósturfeðgum. Uppskeruhátið fyrir veiðiskap og önnur afrek Hösmagaættarinnar á árinu 2009. Er þetta ekki alveg rakið? Það yrði ýmislegt góðgæti á borðum og eitthvað gott til að skola því niður. Ég ætla allavega að hugleiða þetta vel.
Hér er nú veður kyrrt og fremur milt. Kimi var að lauma sér út um gluggann í annað sinn í morgun. Hösmagi fór líka snemma út. Hið daglega sauðaeftirlit hefur sinn gang. Jörðin er alauð en nokkrir skaflar eru eftir í efstu hlíðum Ingólfsfjalls.Ég sé líka hluta af Búrfellinu þar sem óðalið liggur undir norðurhlíðinni. Mér finnst vænt um þessa spildu og vonandi get ég átt hana áfram. Þó áætlanir hafi breyst er draumurinn um kærleikskotið ekki horfinn. Glæpahyskið sem stal öllu sem hægt var að stela af þjóðinni er enn ósnert. Og dæmdur þjófur klæmist á texta Magnúsar Ásgeirssonar úr ræðustól Alþingis. Félegt, eða hitt þó heldur. Allt bendir þó til breytinga. Vonandi komum við sem flestum þjófunum fyrir í tugthúsinu. Upp á vatn og þrumara eins og í gamla daga. Það væri líka athugandi að taka upp ný vinnubrögð á ýmsum sviðum. Mér dettur VÍS í hug. Þetta gamla tyggingafélag merarfinns lánaði nafna mínum Einarssyni 75 milljónir milli jóla og nýárs. Þetta var miskunnarverk eins og fólk hlýtur að sjá. Vínkjallarinn í sumarhöllinni ókláraður og eitthvað vantaði víst uppá baðherbergin 5. En ég verð nú að segja eins og er að ég ætla ekki að breyta um tryggingafélag. Ég mun gráta það þurrum tárum þó þessi nafni minn verði að láta vatn og rúgbrauð duga um tíma. Hann er eins og flestir hinna víkinganna. Blindur, heyrnarlaus og samviskulaus. Það er gustukaverk að taka svoleiðis karaktera úr almennri umferð.

Kærar kveðjur frá okkur vinstri rauðgrænum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta hlýtur að verða mikil stórveisla, án nokkurs efa! Þið ættuð eiginlega að punta ykkur upp í tartan báðir tveir og ganga sigurför um Selfoss með smæl á vör.

Tími í kjörklefa hefur verið bókaður 16. apríl. Nú hefur maður bara rúma viku til að hugsa sig um...
 
Ætli ég verði ekki að koma upp flaggstöng á bílskúrnum? Mér líst vel á, minn kæri, að þú hugsir þig um þessa daga. Láttu bara þína eigin skynsemi og samvisku ráða. Þannig verður þú sáttur með hvar exið lendir. Bestu kveðjur úr blíðviðrinu.
 
...þá fæ ég að vita af ákvörðuninni degi síðar þegar ég mæti til Edinborgar. Þá getum við skeggrætt.

Kveðjur til Ed og Self.
 
Mun varla gleðja ykkur báða alveg óskaplega en sennilega særa hvorugan holundarsári heldur.
 
Ég er hreinskilinn gamall veiðimaður. Ég vona að þið kjósið ekki eins. En þið eruð gamlir fóstbræður og ég fer ekki á límingunum þó svo verði. Mest er um vert að ófarir íhaldsins verði sem allra mestar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online