Sunday, April 19, 2009

 

Suðaustan 14 metrar.

Það er hlaupinn vorgalsi í Kára. Það þýtur í laufi og öðru hvoru þeytist regn um loftið. Við Kimi höfum haldið okkur innandyra að mestu leyti. Letin ráðið ríkjum og ég hef verið í einskonar móki. Við Magnús brugðum okkur í Tangavatn í gær. Vissir um tengsl við urriða. Vatnið var alveg dautt. Við Herconinn grétum báðir. Þetta er í raun mjög dularfullt. Frúin sagðist nýlega hafa sleppt 150 fiskum í vatnið. Örfáir veiðst. Það vakna að sjálfsögðu illar grunsemdir. Mér finnst alls ekki fráleitt að alíensarnir hafi komist uppá bragðið. Varla hverfur fiskurinn bara rétt si sona. Hver sem skýringin er mun ég ekki ergja mig og mína góðu veiðistöng á Tangavatni á næstunni. Rækjunen naut góðs af afgangsbeitunni. Gæddi sér á nýkeyptri úrvalsrækju af stærstu gerð. Nú er Whiskas fóðrið liðin tíð. Nú er það Icelandpet. Ný íslensk framleiðsla sem er miklu ódýrari og virðist vera gæðavara. Hráefnið að mestu íslenskt og Kimi úðar þessu í sig. Gott í kreppunni og sparar gjaldeyri. Ófétið hætt að láta sjá sig. Ég er nokkuð viss á skýringunni. Þetta óféti er sjálfstæðisköttur. Það er hellingur af ófétum í þeim flokki. En kötturinn hefur það þó fram yfir mannskepnurnar að hann skammast sín og þorir ekki að láta sjá sig. Að minnsta kosti fram yfir kosningar. Hins vegar gengur Árni Johnsen hér ljósum logum. Fús til starfa fyrir okkur aumingjana. Ekki alldeilis amalegt. Allskonar spilverk að auki og náhirðin klappar. Árni ætlar eins og Þorgerður að "klára dæmið". Það er þó ekki ljóst hvað þessi klárun merkir. Nærtækast er þó að álykta að íhaldið hafi ekki alveg verið búið að ganga frá þjóðfélaginu en nú eigi að ljúka við það. Það vil ég ekki og sem betur fer bendir flest til þess að dæmdir og ódæmdir þjófar verði úti í kuldanum að kosningum loknum. Það kemur í ljós bráðlega. Krúttkveðjur frá okkur Rækó, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eitthvað hlýtur að hafa komið fyrir vatnið. Fáið þið annars að gera þriðju tilraun fyrir leyfisféð?
 
Já, þetta er undarlegt. Frúin hafði reyndar góð orð um að dagurinn í gær teldist ekki með og við mættum reyna aftur. Ég læt það þó bíða í bili.Þarna gekk maður ávallt að fiski í gamla daga. Í síðustu 7-8 ferðum hef ég fengið 4 eða 5 fiska.Það er stórundarlegt þar sem allir þekkja nú snilld mína með Herconinn. Eftir kosningar fer ég að huga að Þingvallavatni og Kaldaðarnesi. Þetta gengur bara ekki lengur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online