Sunday, March 29, 2009

 

Krossberi.

Messías hefur verið krossfestur. Rekinn út úr musterinu og norskur fjallamaður með Alsheimer settur í hans stað. Messías grætur þungum tárum yfir örlögum trjánna sem notuð voru í pappírinn til að prenta skýrsluna um afrek hans fyrir þjóðina. Náhirðin heldur ekki vatni yfir þessu. Samkunda íhaldsins um helgina er skrautleg. Þar kemur hið rétta andlit flokksins í ljós. Tilgangurinn hefur snúist upp í andhverfu sína. Það hljóta miklu fleiri að flýja flokkinn en ætluðu sér það. Það eitt og sér er gleðiefni. Messías var reyndar ekki á dagskrá fundarins. Honum var þó ekki varnað máls sem betur fer. Það hefði líka verið illa gert við þennan krossbera. Riddara sannleikans, sem allir hafa verið vondir við. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að tala um hroka, skítlegt eðli, dónaskap og hitt og þetta þaðan af verra. Ég ætla ekki að tala meira um krossberann því mér er að verða óglatt.

Það er kyrrt veður en frostið er 4 gráður. Rólegheit hjá okkur Kimi. Sálarlífið í góðu jafnvægi.Nú er ég með sjöttu bókina um eiginkonu hr. J.L.B Matekonis.Presisous Ramotswe. Ég er pínulítið skotinn í henni.Það er allt í lagi á þessum aldri. Ég er ánægður með allan lesturinn í vetur. Ég ætla að lesa heilan helling meðan mér endist heilsa og aldur. Lesturinn er hluti hamingjunnar. Gamall veiðimaður hefur enn til margs að hlakka. Það styttist í páska og vorið er varla langt undan heldur. Það verður gott að taka létta æfingu í Tangavatni. Þar eigum við Maggi dag inni. Og græna þruman að verða óþolinmóð eftir fjallaferð. Brauð og leikir enn á dagskrá þrátt fyrir kreppu íhaldsins. Næst á dagskrá er kók og vindill, silfur Egils og aldrei að vita nema að harðfiskpoki verði opnaður. Nammidagurinn varð útundan í gær og það verður að bæta upp. Bestu kveðjur til allra krúttanna minna, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ræða hins gamla formanns er einhver merkasta menningarheimild um fall og meðvirkni einnar þjóðar sem um getur í seinni tíð. Þarna stóð náhirðin og klappaði fyrir gamla meistaranum á meðan hann beindi fyrirlitningu sinni að öllu sem ekki er hann, hamraði á mannhatri sínu og biturð, gagnrýndi allt sem reynt er að gera til að bæta fyrir mistök hans og uppskar dynjandi lófaklapp fólksins sem hefur stjórnað Íslandi síðustu 18 árin. Hafi einhver borið von til þess að nýtt blóð sreymi inn í þennan flokk á næstu árum þá var hún kæfð á þessum landsfundi. Núverandi formaður hélt líka ræðu í dag, tilraun til að sparsla upp í sprungurnar. Hann gengur heill til skógar andlega, ólíkt forvera sínum, en þetta virkaði samt ekki traustvekjandi. Mér fannst ég horfa á þýskan einræðisherra þegar ég barði augum myndbandið af ræðu fyrrum foringja flokksins. Og að þetta fólk skuli leyfa sér að ráðast á forsætisráðherra okkar með slíkum hætti sem raun ber vitni er svo ótrúlegt og barnalegt að maður stendur næstum gapandi. Innan við tveggja mánaða ríkisstjórnarseta minnihlutastjórnarinnar hefur þegar skilað margfalt meiru en óðagot fyrri stjórnar eftir hrunið. Svo kann að vera að smávægilegur áherslumunur sé á skoðunum okkar í pólitík en eitt geturðu verið viss um, og það er að ég mun ALDREI kjósa flokkinn sem leitt hefur þessa menn til valda og leyft þeim að rústa Íslandi.
 
Maður er auðvitað heimtufrekur lesandi en nú finnst manni kominn tími á nýtt blogg úr veröld Hösmaga!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online