Friday, March 06, 2009

 

Niðurtalning.

Ég er kominn á sextugastaogsjötta aldursárið. Niðurtalningin er hafin. 729 dagar í löggildinguna. Fallegur morgunn þó frostið bíti aðeins. Ég borðaði kjötbollur í sósu í tilefni gærdagsins. Raikonen fékk Eyrarfisk og ég fékk líka að smakka úr pokanum. Báðir harla ánægðir. Í gær birtist skoðanakönnun frá Gallup. SF og VG með hreinan meirihluta. Það sem mér fannst afar athyglisvert í þessari könnun var það, að 41% kjósenda 30 ára og yngri ætla að kjósa VG. 25% sama hóps ætla að kjósa íhaldið. Þó það sé auðvitað alltof hátt hlutfall gleður þessi niðurstaða gamalt vinstrihjarta.Mogginn hefur ekki enn minnst á þetta. Og Rúv er við sama heygarðshornið. Þeir báru könnunina bara undir Geir og Jóhönnu. Ég held að núverandi ástand brenni heitast á þessu unga fólki. Fólkinu, sem hefur skuldsett sig mikið undanfarin ár og á slatta af börnum. Margt af þessu fólki á mjög erfitt eftir skaðræðisstjórn íhaldsins á þessu blessaða landi undanfarin ár. Þó ég sé flokkslaus maður er ég enn sama sinnis í pólitíkinni. Ég vil ekki " grunngildi sjálfsstæðisflokksins" né " mannúðarlega markaðsstefnu" hans. Því miður mun hann fá allt of mikið fylgi. Hann mun þó verða í sögulegu lágmarki og vonandi verður hann áhriflítill um stjórn landsins um langa framtíð. Þó margt skilji SF og VG að er það þó von mín og trú að þeir muni starfa saman eftir kosningar. Það yrðu söguleg tímamót á Íslandi. Blátt áfram unaðslegt að hafa íhaldið í frosti með framsóknarflokknum. Frjálslyndir hafa tekið upp iðju termítanna og eru búnir að tortíma flokknum. Farið hefur fé betra. Ég hef heldur ekki mikla trú á nýjum framboðum. Þau eiga að sjálfsögðu fullan rétt á sér en ég held að uppskeran verði rýr. Þó ekki skipti meginmáli hvort SF eða VG hafi forystuhlutverkið í nýrri stjórn tel ég þó miklu eðlilegra að VG fengi það, verði niðurstöður kosninganna svipaðar og í könnuninni. SF stæði í stað en fjöldi þingmanna VG færi úr 9 í 17. Það yrði einn stærsti sigur stjórnmálaflokks á lýðveldistímanum.

Hér ríkir ró og friður. Vellíðan íbúanna í Ástjörn 7, 205 er mikil. Annar sefur í dyngju sinni og dreymir um veiðilendur. Hinn með fullri rænu við tölvu sína og hugsar líka um veiðilendur. Góan er enn köld en það eru bara 2 vikur í jafndægri á vori. Ég hef á tilfinningunni að apríl verði góður mánuður. Tangavatn með Magga og kannski verður sjóbirtingurinn snemma á ferðinni eins og stundum í gamla daga. Óskir um indælan dag til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Seinni part nætur stóð ég á tanganum við Tangavatn með einn 7 punda á flugustönginni. Vona að ég sé orðin berdreyminn.
 
Ekki spurning. Ekki nokkur spurning. Þetta verða bara boltar sem við veiðum.
 
Á að renna á næstunni?
 
Ætli það verði ekki eins og Óli Ket sagði: Farið verður í færi og veðri. Nú er frost í kortunum svo langt sem spár ná. Ég hef þá nægan tíma í skattinn á meðan. En hugurinn er að sjálfsögðu við Herconinn. Hann er alltf freisting sem ljúft er að falla fyrir.
 
Herconinn er lífstíll - hin tæra snilld, hið stóra titrandi hjarta. Annars kom Daiwa stöngin hans Magga bara nokkuð á óvart. Ég dró fisk á henni og það var prýðilegt stuð! Begga og Svavar gáfu mér eins stöng í útskriftargjöf en ég býttaði henni upp í vöðlur sem mig hafði lengi dreymt um að eignast. Væri alveg til í að eiga Daiwa-stöngina núna, enda löngu búinn að slíta vöðlunum. En þar sem ég á Hercon þá er ég rólegur sem pollur. Bestu kveðjur frá La Scotia, Sössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online