Wednesday, March 04, 2009

 

Tár gíraffans.

Þegar gott fólk er farið að kvarta undan bloggleti verður að bæta úr. Eftir að hafa lokið við Þráinn Bertelsson, Sjón, Þórberg og herra Pip tók Alexander McCall Smith við. Búinn með kvenspæjarastofu nr. 1 og kominn á leið með tár gíraffans. Þessi höfundur er góður og þýðandinn er undirrituðum ákaflega kær. Kærari en nokkurntíma fyrr af alveg sérstökum ástæðum. Fyrir þá sem ekki þekkja til skal upplýst að þýðandinn er heitkona skáldsins míns. Ég hugsa til þeirra í dag. Þessi höfundur á allt það lof skilið sem hlaðið hefur verið á hann. Það er mikið tilhlökkunarefni að leggjast í flet sitt þegar kvölda tekur og njóta þessa yndislega lesturs. Einkadóttirin lánaði mér allar 7 bækurnar svo bókasafnið fær frí frá mér í bili. Nú er ég aðeins byrjaður á framtölunum og brátt fer fólk að taka við sér. Líðan okkar fósturfeðga er alveg geysilega góð í dag. Sá yngri horfir spekingslega út um gluggann. Ingólfsfjall að mestu grátt. Gjóla og lítilsháttar frost úti. Löngu orðið albjart og nú bíð ég eftir hlýjunni. Öll veiðileyfi sumarsins í húsi. Því miður fékk ég færri daga í Ölfusá en ég átti von á. Mikil ásókn í veiðileyfi þrátt fyrir kreppu.Menn reikna með góðri veiði og hugsa til sumarsins í fyrra. Þetta verður til þess að ég mun örugglega reyna fyrir mér í Kaldaðarnesi. Það er í rauninni afar einkennilegt að ég skuli aldrei hafa bleytt færi á þessum víðkunna veiðistað. Örstutt að fara og þarna eru einhver bestu sjóbirtingsmiðin á svæðinu. Sumir halda því fram að megnið af sjóbirtingnum sem gengur í Ölfusá fari ekki lengra. Sannarlega mun ég láta reyna á þetta í sumar og haust. Þegar Hösmagi hættir að hugsa um bakka ár og vatna verður hann orðinn ansi aumur. Þó aldurinn færist yfir og nú séu bara 2 ár og dagur í löggildinguna er ég sæll með tilveruna. Þrátt fyrir tekjufall skrimtir þetta allt saman og græna þruman verður a.m.k. enn um hríð í eigu Hösmaga ehf. Félagið varð 4urrra ára á sunnudaginn var. Nokkuð bratt og á framtíðina fyrir sér. Kaffið er uppdrukkið og Kimi hefur aftur dregið sig í dyngju sína. Við erum báðir alveg arfaslakir á sál og líkama. Ég hlakka til komandi daga með sól í sinni. Í einlægni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við þökkum kveðjur og sendum okkar bestu til baka á afmælisdegi Laxaspillis! Sölvi og Helga Soffía
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online