Tuesday, March 17, 2009

 

Þíða.

Tíminn flýgur áfram og það eru vorjafndægur á föstudaginn. Það er komin hláka og það er spáð 6-8 gráðum næstu daga. Kominn fiðringur í gamlan veiðimann eins og alltaf þegar vorið nálgast. Þrátt fyrir kreppu og óáran eftir andskotans íhaldið er til margs að hlakka. T.d. ófara sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum. Dræm þáttataka í prófkjörum er að mínu mati vísbending um að margir íhaldsmenn ætli að refsa flokknum í vor. Það þarf að senda hann í endurhæfingu. Í nokkra áratugi. Það virðist svo að allur flokkurinn sé í álíka afneitun og hinn dæmdi þjófur sem vermir 2. sæti listans hér í suðurkjördæmi. Allt tæknileg mistök sem eru öðrum að kenna en þeim sjálfum. Að fólk skuli hafa geð í sér til að kjósa íhaldið eftir það sem á undan er gengið er mér hulin ráðgáta. Niður með sjálfstæðisflokkinn. Og norður líka.
Við Dýri vorum komnir á stjá fyrir allar aldir. Bardúsuðum ýmislegt og lögðum okkur svo aftur. Nú er komið hlið á veginn að óðalinu undir Búrfelli. Ég skrapp uppeftir á sunnudaginn. Þetta er rafrænt hlið og opnast þegar maður hringir í það úr GSM síma. Brauðsniðugt og varnar þjófum inngöngu á svæðið. Landið kúrði undir snjónum en nú styttist í að það ilmi á ný. Eftir Gímsnesför lagði ég leið mína niður á strönd. Nánar tiltekið á Eyrarbakka. Þar skoðaði ég agnarsmátt dýr. Kettling sem fæddist á laugardaginn. Hann kom hárlaus í heiminn. Þetta mun vera þekkt erlendis en er afar fátítt hér. Þessi anganóri lifði þó aðeins í 2 sólarhringa þó móðirin og eigendur hennar gerðu sitt besta. Kannski átti hann aldrei möguleika. Hann er nú kominn á önnur tilverusvið með mörgum öðrum.
Það gengur allt sinn vanagang hér í Ástjörn. Vinnutarnir og letilíf inná milli. Nú er ég með 4ðu bókina um Mmm Ramotswe. Skemmtileg lesning og hver bók er akkúrat mátulega löng. Krossgáturnar eru í algjöru fríi. Ég þarf svo í Hveragerði einhverntíma í dag. Þar er verið að gera Lancernum smávegis til góða. Ótrúlega seigur vagn þrátt fyrir þjóðernið. Ekta snattari sem getur dugað í nokkur ár enn.
Kimi var að stinga sér út um gluggan. Aldeilis gott að hnusa smávegis af góða veðrinu. Bestu kveðjur til allra vina okkar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Vorið er að koma. Ég er sjálfur farinn að planleggja veiðferð hér á Skotagrund, búinn að þefa uppi tvö vötn með regnbogasilungi í strætófæri rétt utan borgarmarkanna. Þangað er ég staðráðinn í að fara í maí þegar Sigurður Grétar kemur í heimsókn, og jafnvel fyrr til að kanna slóðirnar. Bestu kveðjur í Ástjörnina, SBS
 
Væri ekki rétt að fara að hringja í frúnna í Galtarlæk hvað úr hverju?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online