Thursday, March 12, 2009

 

Harðfiskur.....

er ákaflega holl og góð fæða. Við Kimi gæðum okkur stundum á svona lostæti. Ég keypti nokkra poka af Eyrarfiski í gærmorgun. Sérlega ljúffengur fiskur sem verkaður er af kunnáttumönnum á Stokkseyri. Þegar heim kom setti ég pokana í ísskápinn. Þeir voru umluktir öðrum poka. Kimi lá í dyngju sinni og tók ekki eftir neinu. Sem betur fer. Hann er ákaflega sólginn í þennan dýra mat.Kannski væri við hæfi að kalla þetta Dýramat. En þessi snilldarafurð sjávar var ætluð öðrum. Undir kvöldmat tók ég pokann úr skápnum því ég var á leið til Reykjavíkur. Þrátt fyrir góðar umbúðir var kötturinn ekki í neinum vafa um innihaldið. Það var enginn friður með þennan poka. Hnus og hnus. Svo starði dýrið á mig. Ætlaði fóstri virkilega ekki að opna posann og gefa smakk? Ég var búinn að koma sjálfum mér í vandræði. Ég átti ekki meira. Mér leið bara alls ekki vel þegar ég yfirgaf íbúðina. Kisi starandi á mig. Spyrjandi með depurð í augum. Hvernig gat fóstri verðið svona harðbrjósta og andsyggilegur? Ég hélt til Harðar bílameistara sem fór með mér í bæinn. Kom fiskinum af mér og hann er svo á leið til Skotlands í fyrramálið. Hélt áfram að hugsa til gæludýrsins sem varð að láta sér nægja reykinn af réttunum. Þegar við komum aftur á Selfoss skilaði ég Herði til síns heima. Síðan renndi ég að Samkaupum. Leist vel á bitafiskinn frá Harðfisksölunni og fjárfesti án hiks í einum poka. Mér var að sjálfsögðu vel fagnað að venju við heimkomuna. Svo var pokinn opnaður. Þá glaðnaði yfir litlu dýri. Við skiptum innihaldinu bróðurlega á milli okkar svo sem góðra vina er siður. Þegar við gengum til náða var mikið kumr og mal. Alsælir fósturfeðgar sofnuðu von bráðar. Þegar sá eldri vaknaði í morgun var sá yngri kominn á stjá. Hann hafði gætt þess vel að lofa þeim eldri að sofa í friði. Örugglega minnugur harðfisksins í gærkvöldi.
Það er sól hér. Úti og inni. Ingólfsfjall með gráan koll. Hitastigið aðeins ofan við núllið. Kyrrð og friður yfir öllu. Nú er svo málum komið að ég mun áfram eiga grænu þrumuna. Það er gott fyrir sálina. Ég hef hugsað vel um þennan dásamlega vagn og mun gera það áfram. Með sama akstri og síðastliðin 3 ár mun hann endast mér vel næstu 25 árin. Þá verð ég níræður. Ég mun bruna áhyggjulaus til fjalla á þessari sjálfrennireið næstu sumur. Bílagenið er meðfætt og dellan ólæknandi. Það er nóg fyrir stafni hjá Hösmaga þessa dagana. Nú held ég áfram þar sem frá var horfið í gær.
Vellíðanin hefur völdin og tilhlökkunin til sumarsins einlæg. Veiði og útivera. Samvera við þá sem mér finnst svo vænt um. Og sólargeislinn. Sólargeislinn litli. Ný grein á ættartrénu. Mesta tilhlökkunarefnið.Við harðfiskæturnar í Ástjörn 7 sendum ykkur bestu kveðjur. Þetta verður góður dagur. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekki er nú aldeilis amalagt að heyra að maður eigi von á harðfiski! Eða ég geri allavega svona heldur ráð fyrir að aðrar addressur í Skotlandi fari halloka í samkeppni við Eyre Crescent 17 í Edinborg...
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online