Friday, March 20, 2009

 

Viltu vera memm......

í dag. Vorjafndægur og blíða. Samkvæmt stjörnuspánni eru fiskar hamingjusamir í dag. Og það vilja allir vera með hamingjusömu fólki. Kannski kemst ég bara á séns? Aldrei að vita hvað dagurinn ber í skauti sér. Í gær kom hér einn íbúi í þessari ágætu Ástjarnarblokk. Vantaði minniháttar aðstoð við að koma frá sér framtalinu. Það var ekki stórmál. Vanur maður hér við skrifborðið. Við sátum og spjölluðum og þar kom að ég kveikti mér í vindli. Með sálarlausm plastkveikjara sem kominn er að fótum fram. Þegar alíensinn náði af mér kveikjaranum í febrúar láðist honum að taka eldsneytið með. Það stendur hér á borðinu og gesturinn rak augun í það. Ég rakti raunir mínar fyrir honum og lýsti fólkubrögðum ódósins í smáatriðum. Hann komst við en sagði að lítið mál væri að bæta úr. Hann ætti nokkra Zippóa, hljóp niður og kom að vörmu spori með þetta ekta eldfæri. Ég var snöggur að dæla eldsneyti í púðann og það var hrein lífsnautn að tendra eld með þessu frábæra tæki. Stálið volgt og dásamlegt að kreppa um það hnefann. Gesturinn sagði mér að hann hefði verið gjarn á að " týna" Zippóum. Hafði oftar en einu sinni verið búinn að kaupa nýja en síðan "fundið" þá sem "glatast" höfðu. Ég sagði fátt þó ég vissi upp á hár hvar maðkurinn lægi í mysunni. Hrekkjabrögð ódóanna lýsa sér í ýmsum myndum. Ég naut þó góðs af og er þessvegna ákaflega hamingjusamur í dag. Það var ljúft að leggja í hann í morgun með glitrandi stálið meðferðis. Veðrið dásamlegt og Raikonen hnusandi í móanum hér sunnan við blokkina. Þegar heim kom hafði Dýri skilað sér inn um gluggann og fagnaði mér ógurlega. Nú er Lancerinn kominn með rauða 10 miðann á sitt flotta númer. Hann er nú ekinn rúmlega 180.000 km. Ég keypti nýja tímareim í gær. Allur er varinn góður. Ef tímareimin bilar er illt í efni. Enginn ekur bíl með kengbogna ventla. Það veit herra J.L.B. Matekoni manna best.Galdramaðurinn Hörður hefur lofað aðstoð við að skipta um reimina.Og hann verður snöggur að því ef ég þekki hann rétt. Svona ámóta og þegar hann skipti um miðstöðina í gamla Volvóinum mínum um árið. Hann gerði það á þremur tímum en kaupfélagsverkstæðið framkvæmdi slíkar aðgerður á tveim heilum dögum. Það er eins og ég hef sagt áður gott að þekkja svona snillinga. Hamingjan ríkir hjá gömlum veiðimanni sem enn er þungt haldinn af bíladellu. Græna þruman á stalli sínum. Gljáandi eftir nostursamlegan sápuþvott í gær. Tilbúinn til veiðiferða hvenær sem er. Spíttmótorinn á sínum stað. Þegar ég les um Tlokweng spíttmótora, fyrirtæki hr. J.L.B. Matekonis, kemur mér græna þruman ævinlega í hug. Verðandi eiginmaður kvenspæjarans yrði hrifinn ef hann kynntist slíkum vagni.
Það verður nóg að starfa um helgina. Hinn almenni frestur til framtalsskila rennur úr á mánudaginn. Ég er á góðu róli í þeim efnum. Gef mér örugglega tíma fyrir Fullan skáp af lífi, 5. bókina um kvenspæjarann og allt hitt skemmtilega fólkið.
Andvari vorsins leikur um íbúð okkar Kimis. Svaladyrnar uppá gátt. Dýrið liggur í gluggakistunni og ég með volgt stálið í greip minni. Megi dagurinn færa ykkur gleði. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Ljúfur var lestur þessa pistils. Vorið er að skríða inn í faðminn á Edinborg þótt það taki einstaka frekjukast, eins og í dag þegar tók að hvessa upp úr þurru. Bestu kveðjur til Dýra og Zíppóa, megi ódóar nú allir niður kveðnir, Sössi
 
Sæll gamli. Síminn er nú lokaður hérna eins og er þar sem símafólkið vill ekki senda okkur reikning eða taka við greiðslu með öðrum hætti. En við heyrumst kannski bráðlega. Harðfiskurinn er þegar kominn í neyslu og bragðast dásamlega! Bestu kveðjur frá Edinborg, SBS&HS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online