Thursday, March 26, 2009

 

Pólitíkin.

Það er mánuður í þingkosningar.Nú bendir flest til að frjálslyndi flokkurinn hverfi og nýju framboðin fái lítið fylgi.Sumir tala af mikilli fyrirlitningu um fjórflokkinn. Eins og það sé bara einn flokkur. Þetta er auðvitað firra. Sjálfstæðisflokkurinn með dyggri aðstoð framsóknar hefur komið þessu skeri á hausinn.SF á reyndar nokkra sök í þeim efnum. Það hefur verið upplýst að minnisblaðið úr seðlabankanum um dökkt útlit í bankamálum var lesið upp fyrir þau Geir, Árna Matt og ISG í febrúar. ISG hefur sennilega verið of upptekinn við að rembast við að koma okkur inní öryggisráð SÞ. Það var draugurinn sem átti upphaflegu hugmyndina að þeirri fáfengilegu dellu. ISG hefði betur varið kröftum sínum í önnur og betri málefni. Hún hefur nú dregið sig í hlé. Það er sorglegt á sinn hátt. Ég gleymi aldrei þætti hennar í að fella íhaldsmeirihlutann í Reykjavík. Þar átti hún langstærsta þáttinn. Vonandi nær hún heilsu sinni á ný. Af eigin rammleik og með hjálp góðra vætta. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun fréttablaðsins fá SF og VG 38 þingmenn, íhaldið 20 og framsóknarmaddaman aðeins 5.Þetta er þó aðeins niðurstaða könnunar en óákveðnum er þó að fækka. Náhirð íhaldsins skilar sér öll en margir kjósendur þess utan hirðarinnar hafa séð að sér. Ef fram fer sem horfir verður VG stórsigurvegari í kosningunum. Þó ég sé flokkslaus maður yrði það mér mikið fagnaðarefni og ég verð ekki í vandræðum við kjörborðið.Áherslur fólks á borð við Ögmund Jónasson eru mér að skapi. Það er sá stjórnmálamaður sem ég hef langmest álit á nú. Eins og reyndar áður. Ég hef lítillega kynnst Ögmundi persónulega og ég held að lífsskoðanir okkar séu ákaflega líkar. Ég þarf ekki að rekja þær hér.Það er mikið af góðu fólki í SF. Því miður á markaðshyggjan þar líka marga formælendur. Og oftrúin á ESB er líka vond. Ég hef nánast þrástagast á því að það á að spyrja þjóðina áður en aðildarviðræður verða hafnar. Blása til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við eigum að sækja um aðild. Mér finnst það eðlileg og lýðræðisleg lausn. Krónuræfillinn okkar er nú aumari en nokkru sinni fyrr. Þar er ærið og vandasamt verkefni framundan. Því miður eru engar töfralausnir til í þeim efnum. Mörg nýju ríkin í ESB eru í miklum vandræðum þrátt fyrir evruna. Allt fyrir ekkert eru ein frægustu öfugmæli stjórnmálasögunnar síðustu áratugi. Flati 20% niðurskurðurinn á skuldum heimila er heldur ekki góður. Mér líst miklu betur á niðurskurð í krónutölu. Það er bæði ódýrara og kemur þeim verstsettu best. Og það verður að gæta þess vel að þessir fjármunir verði notaðir til lækkunar húsnæðislánanna eingöngu. Ekki vil ég aðstoð úr almannasjóðum til að greiða lánið á grænu þrumunni.Ef sigur VG verður nógu stór í kosningunum munu hin betri gildi SF verða ofaná í flokknum. Þá megum við eiga von á öflugri umbótastjórn sem breytir algjörlega um stefnu. Náhirðin mun verða úti í kuldanum með lík framsóknar í eftirdragi. Þá verður aftur gaman.
Enn er bið eftir vori. Hitinn oftast við eða undir frostmarki. Við Maggi bíðum bara færis á að bruna í Tangavatn. Það verður örugglega heilmikið vorkikk. Við Rækó erum hressir. Hann er æ meira útivið eftir að birtan hefur ýtt mesta myrkrinu burt. Mér voru gefnir 4 pokar af harðfiski í vikunni. Næstu laugardagar verða nammidagar hjá okkur. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bestu kveðjur sömuleiðis. Annars er ég nú ekki alveg sammála þér um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, skil ekki fyrir nokkra muni hverju slíkt á að þjóna. Er ekki nóg að þjóðin fái að segja hug sinn einu sinni? Vilji hennar hlýtur að koma fram með ótvíræðum hætti í kosningu um inngöngu að undangengnum aðildarviðræðum. Það er algjörlega undir þjóðinni komið að fella aðildarinngöngu þótt stjórnvöld hafi átt í viðræðum og jafnvel ákveðið að sækja um aðild. Tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslan er vitaskuld bara til að flækja málið, auka kostnaðinn og tefja fyrir innöngu. Gamla flokksforystan í VG er því miður löngu búin að leggja línur flokksins í Evrópumálum, þótt hún sé að standa sig ágætlega annars staðar. Ég myndi ekki hika við að kjósa VG ef hjá þeim mætti skynja annað en lýðskrum í kringum Evrópuumræðuna - telja hagsmunum okkar betur borgið utan sambandsins en segjast samt að skoða eigi málin. Semsagt búnir að ákveða að loka á Evrópumálin en vilja halda vængnum opnum til að útiloka ekki atkvæði fólks sem er Evrópusinnað. Mér finnst þetta tvískinnungur. Flokkurinn er því miður klofin milli gömlu forystunnar og ungu kvennanna sem verða fyrr en síðar að taka forystu innan VG. Katrín, Svanhildur, Lilja og Guðrún Lilja til dæmis. Þar eru kjarnastjórnmálamenn á ferð. Ömmi er auðvitað gamall nagli og stendur fyrir vel fyrir sínu en í alþjóðamálum er hann pikkfastur í fortíðinni. Segjum þetta í bili! Kveðjur til Rækó, Sölvi
 
Er sammála skoska skáldinu varðandi atkvæðagreiðsluna. Af hverju að kjósa áður en farið er í viðræður? Förum í viðræður,ef niðurstaðan er síðan ekki ákjósanleg að mati þjóðarinnar þá getur hún sagt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Auk þess er ekki ólíklegt að strax við upphaf viðræðna kæmu fram jákvæð áhrif í gengismálum. Eitthvað sem mundi henta okkur flestum.
Koma svo, berjast.
 
Sá þetta hjá Agli Helga á Eyjunni.
"Leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu við inngöngu í Evrópusambandið hefur aldrei verið farin áður.
Hún hefur þann ókost að í fyrri umferðinni – þegar kosið er um hvort eigi að fara í aðildarviðræður – vita menn í raun sáralítið hvað þeir eru að kjósa um.
Þess vegna er hætt við að umræðan verði í mjög í anda grýlu – og tröllasagna, þar sem er endalaust hægt að slengja fram staðhæfingum sem kann að vera ekki neinn fótur fyrir.
Þessi aðferð hentar hins vegar stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem þora ekki fyrir sitt litla líf að taka afstöðu til málsins."

Stöngin inn að mínu mati.
 
Jamm, sammála. Auðvitað er að mörgu að hyggja núna til að redda okkur upp úr drullunni og verja samfélagskerfið falli. Mér finnst samt að Evrópumálin ætti að skoða sem allra fyrst og sjá hvaða samningsstöðu við höfum á þeim bænum. Hugsanlega verður hægt að semja um einhvers konar skuldajöfnun í leiðinni. Við erum auðvitað í miklu verri samningsstöðu nú en áður, þökk sé Sjálfstæðisflokknum, en það þarf að skoða þetta. Jamm.
 
Jamm. Bara orðnar líflegar umræður. Ég gæti skrifað hér langan og heljarmikinn pistil. Læt það þó vera í bili. Hér áður fyrr fengum við kommarnir línuna beint frá Moskvu. Nú er það Garðabær og Skotland. Kannski göngum við einhverntíma í ESB. En það leysir ekki bráðavandann nú.SF og VG verða að moka fór íhaldsins fyrst. Ég tel nú víst að hvorugur ykkar muni kjósa íhaldið eða framsókn. Men jeg vælger ikke Samfögelsen. Det kommer ikke til grene. Ég mun úleleija mikið þegar úrslitin liggja fyrir. Áfram VG.
 
Já, þetta er sem betur fer allt að koma, þökk sé alþjóðavæðingunni. Garðabær og Skotland eru Nýja Moskva, hver hefði trúað þessu? Hörmungarnar sem Ísland er búið að ganga í gegnum nýverið hefðu aldrei orðið hefðum við verið í ESB, einfaldlega vegna þess að þar er eftirlit til staðar svo slíkt óðafjárglæfur fái ekki liðist. Það breytir svosem litlu núna, skaðinn er skeður. Ég held samt enn að hagsmunum okkar sé betur borgið þar en ein á skeri. Og það er sannarlega rétti tíminn til að skoða þetta núna, þótt seint sé. Að bíða lengur... þyngra en tárum taki.
 
Vona bara að húsnæðislán barnanna minna hækki ekki um hver mánaðamót vegna verðtryggingar eins og hjá okkur. Örfá vanþróuð ríki sem þurfa að búa við þetta.
 
VG varð til í Garðabænum um daginn. Þrátt fyrir að vera langt frá því að kjósa skattaliðið þá er þetta merkilegt nokk. Hér í bæ voru allir í nato og Keflavíkurgangan var grýtt með eggjum í denn. Vonandi merki um breytta tíma.
 
Skattalið? VG? Skattastefna íhaldsins hefur verið fólgin í því að gefa ofursvindlurum tækifæri á að skjóta stolnu fé undan skatti. Og það litla sem upp er gefið er með 10% skatti. Þetta er jöfnuður íhaldsins. Við hin stöndum undir kostnaðinum við að mennta börn glæpamannanna og lækna þá ef þeir fá kveisu. Skattastefna VG mun breyta þessu. Venjulegt launafólk þarf engar áhyggjur að hafa af skattastefnu VG.Þá hefur Steingrímur einn formanna flokkanna lýst því yfir refjalaust að hann vilji afnema verðtrygginguna. Þá verða barnabörnin mín betur sett í framtíðinni.Það er flokkur með svona stefnu sem ég ætla að kjósa. Flokk sem ætlar sér að breyta úthlutun gæðanna mér og öðru láglaunafólki í vil. Þetta er lika eini flokkurinn sem enga ábyrgð ber á hruninu.Nákvæmlega enga.Það er líka gaman að sjá að VG er stærsti stjórnmálaflokkurinn í kjördæmi Steingríms. Samkvæmt nýjustu könnun er hann með yfir 32%atkvæða þar. Þrátt fyrir að Steingrímur vilji ekki álver á Bakka. Og það sem mikilvægast af þessu öllu er, að aldursgreining á svarendum sýnir að yfir 40% af fólki á aldri ykkar bræðra styður VG. Þetta gleður mitt gamla vinstri hjarta. Gamla kommagrýlan er steindauð. Sífellt fleiri kjósendur eru að átta sig á að núna og akkúrat núna er nauðsyn á að efla styrk VG. Nema náhirðin og nokkrir nytsamir sakleysingjar. Nú keppast íhaldsmennirnir um að lýsa yfir að þeir hafi gert mistök. Jafnvel tóma vitleysu. Samt eigum við að kjósa þá. ISG lýsti því líka yfir í gær að hún hefði sýnt andvaraleysi.Allir þekkja feril framsóknarmannanna. Það er bara VG sem hefur hreinan skjöld. Flokkurinn á að fá tækifæri og ég ætla að stuðla að því.
 
Verð að viðurkenna að ég hálf öfunda Hösmaga af sinni sannfæringu. Sjálfur veit ég ekki í dag hvar mitt akvæði lendir 25. apríl.
Varðandi kommagrýluna er ég ekki sammála. Hún er sprellifandi niðri í Laugardalshöll, án hennar hafa sjallarnir ekkert í dag.
Varðandi skattaliðið og burtséð frá hátekjuskatti almennt. Eru 500þús. hátekjur?
 
Já, mér líst vel á að þú kjósir VG. Þetta blundar enn í mér. Ég er svona að pæla í að kjósa Samfó, eingöngu vegna Evrópumálanna. Ég held að það yrði betra upp á Evrópumálin að gera ef Samfó yrði aðeins stærri en VG. Ef VG verður stærstur verður ekkert hugað að Evrópumálum um langa hríð. Verðtryggingin verður aldrei afnumin á meðan við notum krónuna, það er staðreynd sem gæti eins verið meitluð í stein, og VG vill halda áfram með krónuna, eða þá norsku krónuna, sem er ömurleg hugmynd. Í VG, eins og öðrum flokkum, er fólk með tengsl inn í kvótaklíkur. Ég veit ekki hvort það er ástæðan fyrir að ekkert heyrist um kvótamál í þessari kosningabaráttu sem á að ganga svona mikið út á jafnrétti. Ég er 100 sinnum vinstrisinnaðri en að geta kosið með 100% sannfæringu í þessum kosningum, því enginn flokkur er að taka á öllum baráttumálunum, kvótamálinu þar með töldu. Það er undarlegt í ljósi þess að nú eru grunnauðlindirnar aftur orðnar miklu mikilvægari en vaxtabrask og hlutabréfasvindl. Við eigum fiskinn og orkuna en 5% þjóðarinnar fær 80% af tekjunum af þessu og við hin skiptum restinni. Hvar er sanngirnin í þessu? Hvers vegna lýsir VG því ekki yfir að kvótalögin séu stór hluti af vandamáli fortíðarinnar, því sem kom okkur hálfa leið í gröfina? Og nú vilja kóngarnir fá skuldirnar afskrifaðar en samt halda eignunum eftir! Sem voru og ættu að vera sameign þjóðarinnar! Þetta er svona eins og að fá ókeypis hús frá ríkinu, kveikja í því og heimta að ríkið byggi annað fyrir mann í staðinn. Nóg í bili. S.
 
Á maður að hætta sér inn í fjölskyldusamræðurnar?

Sammála um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna. Held að það sé ekki krafa þjóðarinnar almennt, bara útspil hræddra stjórnmálamanna í skjálfandi flokkum sem þora ekki að taka afstöðu til eða frá um ESB.

Er ekki jafn bjartsýnn á kynslóðamun í VG í Evrópumálum og Sölvi. Minni á að Katrín Jakobs. er einn helsti forystumaður Heimssýnar, samtaka íslenskra evrópskeptíkera. Jú, kannski Lilja. Man annars ekki eftir neinum einasta öðrum VG-ara sem lýst hefur áhuga á ESB-aðild.

Hræddir stjórnmálamenn sem ekki þora að taka afstöðu til ESB segja núna, enn og aftur: ,,Sjáum til í framtíðinni með ESB. Við komumst hvort sem er ekki inn nú".

Er þá betra að bíða með að sækja um í nokkur ár til viðbótar til þess að það taki enn þá fleiri ár að koma okkar hagsmunum í höfn?

Menn segja: við fáum hvort sem er ekki að taka upp evru strax og verðum að lappa upp á krónuna í bili. Eigum við sem sagt að bíða nokkur ár í viðbót með að leysa það ástand í stað þess að byrja strax?

Margir segja líka að mörg ESB-ríki séu í vandræðum og skrökva því jafnvel að mörg þeirra sjái nú eftir inngöngu í sambandið. Einhvern veginn er nú samt aldrei vísað í beinar heimildir. Þvert á móti hef ég heyrt hvern Írann á fætur öðrum lýsa því yfir nú að ástandið hjá þeim sé slæmt en guð hjálpi þeim ef þeir væru ekki í ESB.

Ég segi því eins og Sölvi (sýnist mér): Ég kýs út frá Evrópumálunum og hvet aðra til að hlusta ekki á hrædda pólitíkusa sem reyna að dreifa athyglinni frá eigin ótryggu afstöðu í málaflokknum með því að segja að þetta sé ekki aktúellt núna.

Hvað er nefnilega annað í boði en ESB?
 
Á landsfundi VG um síðustu helgi var samþykkt að flokkurinn færi ekki í stjórn með íhaldinu eftir kosningar.Þetta er góð trygging fyrir vinstrisinna. Í sjálfstæðisflokknum er mikill ágreiningur um ESB þó reynt sé að breiða yfir hann. Þeir sem eru eindregnir í stuðningi sínum við ESB hljóta að kjósa SF.Þjóðin og flokkarnir eru reyndar klofin í málinu. Ofsatrúarfólk á báðum vængjum. Ég er mitt á milli. Vil skoða málið en fara varlega. Yfirlýsings Dags B., sem í gær var kjörinn varaformaður SF, var að strax að loknum kosningum myndi SF " sækja um ESB" Þetta er verulega einkennileg yfirlýsing. Í henni felst að SF virðist reiðubúin í stjórn með íhaldinu og framsókn ef það þjónar hagsmunum flokksins í ESB málinu. Klækjastjórnma´l af verstu sort.Það er líka vitað að ágreiningur er í VG um málið. En kosningarnar snúast ekki bara um ESB. Það er bráðanauðsyn að SF og VG taki höndum saman um að breyta til í þessu þjóðfélagi. Það má alls ekki ske að íhaldið fái tækifæri til nokkurra áhrifa. Langbesta tryggingin fyrir því er afgerandi stuðningur við VG í kosningunum. Ég geymi kvótamálið í bili. Þeir sem hafa fylgst með pistlunum mínum undanfarin ár vita vel hvar ég stend í þeim efnum.
Stundum er talað um ættarveldi í íslenskri pólitík. Sbr. hugleiðingar um Engeyjarættina. Hugsið ykkur nú aðeins um. Hvernig væri að leiða Hösmagaættina til valda. Ég, sem aðallaukurinn yrði að sjálfsögðu forsætisráðherra. Sölvi gæti tekið að sér utanríkismálin. Skroppið til Brussel annað slagið og tékkað á ESB. Maggi yrði fjármálaráðherra og sæi um skattastefnuna. Begga tæki að sér menntamálin og Siggi afakóngur yrði umhverfis- og iðnaðarráðherra. Svo yrðu helstu vildarvinir fjölskyldunnar ráðnir í restina af ráðherraembættunum.Kimi yrði skipaður ráðgjafi og fengi harðfisk að vild sinni.Þetta yrði þrusugóð stjórn. Glæpalýðurinn yrði tugthúsaður í hvelli. Allir ráðherrar fengju óheftan aðgang að bestu veiðiám landsins. Önnur spilling yrði alls ekki leyfð. Nema að öll lán fjölskyldunnar yrðu afskrifuð strax. Það er þó ekki víst að þjóðin samþykki framanskráð. En það er nú allt í lagi að láta sig dreyma aðeins.
Dýri tannar nú feld sinn hér við hlið mér. Alhvít jörð og sólin glampar á fjallinu góða. Við vinstri rauðir sendum vinum okkar bestu kveðjur.
 
Má ég þá fá sendiherrastöðuna í Köben í krafti Hösmagaklíkuspillingar? Þá þarf ég nefnilega ekki að standa í því að pakka dótinu mínu ofan í kassa.

Annars held ég að flestir í Sf og VG séu algjörlega sammála um að stjórn þeirra sé kostur nr. 1, 2 og 3 ef flokkarnir ná meirihluta á þingi í kjölfar kosninga.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online