Sunday, March 08, 2009

 

Raunir Dýra.

Í pistli gærdagsins sagði ég frá leik Kára utandyra. Silfur Egils var að byrja þegar ég lauk pistlinum. Þegar því lauk var ég orðinn vindlalaus. Ég átti vindla í bílskúrnum.Tók lásinn af útidyrahurðinni þó ég væri með lyklana í vasanum. Allur er varinn góður eftir að hafa marglæst mig úti. Ég hef ekki lokað nógu vel. Hurðin fauk upp og Kári skaust inn og feykti svalahurðinni upp líka. Myndin í forstofunni lá á gólfinu. Þetta hefur verið heljarhvellur. Ég kom mér þægilega fyrir í gamla letistólnum í stofunni. Klóskerpunni sjálfri. Fékk mér vindil og lét mig dreyma um dásemdir sumarsins. Færði mig svo fram að tölvunni og sá að Dýri hafði yfirgefið ból sitt á teppinu góða. Kippti mér ekki upp við það þvi hann breytir um legustað annað slagið. Eftir dund á kontornum fékk ég mér annan vindil. Svo fór ég að leita að gæludýrinu. Það virtist gufað upp. Mér komu ódóin í hug. Gat það verið að þau hefðu numið þennan góða vin minn á brott? Þau eru nú þekkt fyrir annað eins.Dýri var bara alls ekki innandyra. Þrátt fyrir rokið opnaði ég gluggann á kontornum. Fékk mér að éta og tíminn leið. Eftir sirka 2 tíma birtist mitt kæra gæludýr. Með kollhúfur og heldur framlágt. Vindhvellurinn hefur líkst jarðskjálftanum mikla í fyrra. Kisi dúndraði sér fram af svölunum og flýði. Hann var þó fljótari að jafna sig nú. Það urðu engir eftirskjálftar í kjölfar hvellsins. En dýrið hafði vara á sér það sem eftir lifði dagsins. Hélt sig að fóstra sínum. Svo mjög að aldrei voru nema nokkrir sentimetrar á milli. Nú erum við hér báðir við borðið klukkan 7 að morgni. Vindurinn er að ganga niður og kaffið smakkast vel að venju. Framundan er stórframtalsgerð sem ég hyggst ljúka fyrir hádegi. Ég er eiginlega hættur að skilja hvernig ég hafði þrek í framtalsgerðina áður en netframtalið kom til. Mikill vinnusparnaður og öryggið líka meira.
Það er að verða dúnalogn. Kimi með trýnið út um gluggann. Kaffið búið og nú er bara að hefjast handa við möppurnar. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Skemmtileg færsla um stórvináttu ykkar félaganna. Ég hef staðhæft áður og ítreka nú að stærsti gallinn við reikula búsetu er að geta ekki átt loðið dýr. Maður bætir það þá bara upp með öðrum hætti eins og hægt er. Bestu kveðjur í Ástjörnina, ykkar Sössi Bjössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online