Friday, June 27, 2008

 

Háfur, stöng, veiðitaska og vöðlur...

eru komin um borð í grænu þrumuna. Og stóll að auki. Enginn ánamaðkur í farteskinu.Steini tölvari kom hér aðeins við í gærkvöldi. Geðþekkur náungi sem býr í næstu blokk og er mér stundum innan handar þegar ég lendi í tölvuvandræðum. Starfar í Reykjavík en ekur á milli. Á miðvikudaginn kostaði ánamaðkurinn í höfuðborginni 300kr. stykkið Einhver fyrirhyggjusamur tínslumaður seldi 5.000 maðka á einu bretti. Sem sagt fyrir einaoghálfamilljón. Hjá sumum er engin kreppa. Ég saup eiginlega hveljur við að heyra þetta. Það eru greinilega fleiri bilaðir en ráðherrar ríkisstjónarinnar. Túpurnar og spænirnir verða að duga mér á morgun.
Þessar hugleiðingar minna mig á afmælisdag föður míns sæla, sem er í dag þann 27. Og ævintýrið á þessum degi fyrir 21 ári sem var 85 ára afmæli þess gamla. Þá átti ég engan ánamaðk en veiddi bara á Halta hanann. Ég hef minnst á þennan dag hér áður og ætla ekki að tíunda það hér aftur. Það eru breyttir tímar í veiðinni eins og svo mörgu öðru. Stóri Sogslaxinn horfinn og ég efast um að hann komi aftur. Í morgun voru 6 laxar komnir á land. Kannski bætist eitthvað við í dag. Þetta er ekkert verri byrjun en flest undanfarin ár. Það er spáð heldur svalara veðri á morgun en í dag. Samt sól og blíða áfram.Áin tær og falleg en fremur lítið vatn. Þegar væntingar eru ekki miklar verður ánægjan því meiri ef manni tekst að krækja í fisk.

Það eru eiginlega hálfgerðir hrellingardagar fyrir Dýra nú um stundir. Það standa yfir viðgerðir á blokkinni. Hvæs, hviss og sarg. Fyrst voru það háþrýstimenn með sprautur sínar og svo komu múrsargararnir í kjölfarið með meitla, hamra og smergel. Skotið góða í þvottahúsinu komið í góðar þarfir. Sargarar sennilega hættir í dag og Kimi þrífur loppur sínar hér í glugganum. Bestu kveðjur frá okkur báðum. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Heill Langa-Sveini! Við HS erum í Edinborg og hér hefur verið fremur þungbúið í dag, mjög íslenskt sumarveður. Kveðjur í bili, Sölvi
 
Og hvað svo, kom eitthvað upp úr Klettsvíkinni?
 
Að kvöldi þess 28. voru 11 komnir á land, þar af 2 úr Klettsvíkinni.Undirritaður ekki kominn á blað. Ég kastaði túpunni í Klettsvíkinni í rúman klukkutíma seinnipartinn í gær. Ég gafst upp og fór snemma heim. Ekki laus við magapestina enn. Samt miklu skárri í dag. Minn ágæti vinur, Hörður bílameistari, sló hjá sér blettinn í gær og ætlar að vökva í allan dag. Vonandi tekst mér að ná upp nokkrum ormum svona uppúr miðnættinu. Bestu kveðjur til Edinborgar, Hösi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online