Sunday, June 29, 2008

 

Hvíldartími.

Í laxveiðinni er alltaf svokallaður hvíldartími. Fyrst má veiða í 6 klukkutíma þ.e. frá 7-13 og svo frá 16-22. Þriggja tíma hvíld sem er bara ágætt. Ég átti veiðidag í gær. Sökum magapestar mætti ég nú ekki til veiða fyrr en rúmlega átta og fór heim um hálfeittleytið. En það er fleira fiskur en blessaður laxinn. Ég veiddi nokkuð vel í hvíldartímanum. Við Hörður bílameistari skutumst niður á Stokkseyri og hittum þar vin hans. Frá honum fórum við nokkuð vel brynjaðir fiskmeti. Í stað laxins lentu í frystikistunni lúða, ýsa, skötuselur og humar. Aldeilis ekkert slorfæði það. Gæti orðið fiskiveisla hér þegar helvítis pestin hefur látið undan síga. Ég yrði ekki undrandi þó Dýri yrði bara nokkuð ánægður með smá tilbreytingu. Nú er bara að vera duglegur í eldamennskunni. Þarf að grandskoða allt sem í kistunni er. Flokka og merkja. Það er skelfilegt að henda góðum mat. Svo er líka sagt að fiskát auki við gáfurnar. Það er líka alkunn staðreynd að það má grilla fisk ekki síður en blessað kjötmetið. Þessi vinur Harðar er í Cherokee liðinu. Hann má vart vatni halda þegar græna þruman er nálægt honum. Hann á sjálfur rauða þrumu af eldri gerð. Sennilega svona skitin 240 hestöfl. Hann langar mjög að fá að prófa þá grænu. Það stóð nú þannig á hjá honum í gær að það gat ekki gengið upp. En það verður bara síðar og ég veit hver launin verða. Meira af gáfumaukandi mat. Svona getur maður haft gott af að kynnast vini vinar síns.

Eftir að hafa sofnað uppúr klukkan átta í gærkvöldi var þess svo sem að vænta að ég vaknaði snemma. Ég reyndi að sofna aftur en gafst upp. Ég var sestur að kaffidrykkju um tvöleytið. Bardúsaði svona hitt og þetta og kisi fylgdist með hverri hreyfingu. Svaladyrnar hafa verið mikið opnar að undanförnu. Allt í einu sá ég skordýr á skriði eftir parketinu. Það var járnsmiður. Þá drep ég aldrei. Ég hélt bara áfram að kasta teningunum. En örlög þessa aumingja voru að sjálfsögðu ráðin. Kimi gerir engan greinarmun á skordýrum. Drepur allt sem kló á festir.

Hann er enn á norðan og fremur svalt. Kemur ekki mikið við mig því ég held dundi mínu áfram innandyra í dag. Kíki svo á veiðimenn síðdegis. Reyni að éta eitthvað sem vel fer í maga. Ráðskonubrauð og kryddsíld í gærkvöldi. Nokkuð gott saman. Líklega tilvalið að elda sér hafragraut. Prýðisfæða sem ég borða alltof sjaldan. Kveðjur frá okkur Rækó, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online