Sunday, June 01, 2008

 

Júní.

Enn nýr mánuður hafinn. Minn uppáhaldsárstími. Birtan ræður ríkjum. Ég fer örugglega uppí Grímsnes í dag. Á skikann minn sem kúrir undir Búrfellinu. Eins og efnahagsástandið er núna reikna ég nú tæplega með miklum framkvæmdum þar í sumar. En landið hleypur ekki í burtu. Jólagjöfinni frá skáldinu og haldreipi þess mun verða plantað þar í júlí. Það er tilhlökkunarefni. Ég hitti seljandann í síðustu viku og hann lofaði að ljúka við ræsisgerðina sem nauðsynleg er þegar til stórframkvæmda kemur. Ég vaknaði klukkan 6 í morgun. Fremur svalt og ég sá að hitinn hafði farið niður í 2,3 gráður. Enda fór ég í ullarpeysu áður en ég fór út að líta eftir sauðum mínum. Ró yfir bænum. Eftirskjálftarnir eru aðallega í Ölfusinu. Einhvernveginn var gærdagurinn mér afar erfiður.Erfitt að lýsa því. Og kannski ástæðulaust líka. Stundum finnst manni allt ómögulegt þó í raun sé ekkert að. Ég hengdi allar myndirnar mínar upp aftur í gærkvöldi. Raðaði í skápinn sem allt hrundi úr í síðustu viku. Það hjálpaði nokkuð. Þetta ætti bara ekki að vera svona. Ég var heppinn í þessum ósköpum. Við kisi báðir heilir á hófi og tjón mitt smámunir einir. Ég kannast við þetta sálarástand úr fortíðinni. Þá voru augljósar ástæður fyrir því sem ekki eru fyrir hendi nú. Stundum virðist maður alltíeinu verða meyr.Án nokkurrar ástæðu. Einhverntíma ræddi ég hér um hið ljúfsára. Það sem ég kalla ljúft og sárt í senn.Vissa gleði en mikla þjáningu og vanlíðan samtímis. Kannski eru þetta dulin eftirköst atburða síðustu viku. Ég vinn mig frá þessu. Enginn efi í mínum huga í þeim efnum. Enda hef ég alltaf verið bjartsýnismaður og tel það hafa bjargað mér margsinnis. Ekkert er fólki mikilvægara en andlegur styrkur ef eitthvað fer úrskeiðis. Það hef ég sannreynt um mína daga. Ég held að ég hafi fengið rólyndi og jafnlyndi í vöggugjöf. Verð sjaldan reiður og finnst hræðilegt að upplifa það. Það er undarlegt að vera að tala um þetta hér og nú. Svona opinbera dagbók um einkalífið og tilfinningar sem eru að brjótast um í sálartetrinu. Ég ætla samt að þrykkja pistlinum út.
Raikonen situr nú hér í glugganum og horfir til Ingólfsfjalls. Spekingslegur á svip en jarðfræðiþekking í lágmarki. Þrífur löpp sína annað slagið aldeilis ómeðvitaður um hvað skelfdi hann svo mjög í vikunni. Ég ætla ekki að rugla hann í ríminu með því að taka hann með í Grímsnesið, sem þó hefði verið skemmtilegt. Hann verður bara í sínu daglega starfi sem húsvörður á meðan. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Mikil ósköp, það kannast nú allir við að verða svolítið daufir í dálkinn þótt ekkert sé svosem sérstakt sem steðji að. Þá er bara að bíta á jaxlinn og bíða eftir betri tíð. Ég hef nú ekki trú á öðru en veiðin muni hressa Hösmaga við í sumar. Ég sá afar freistandi tilboð á laxveiði í Eystri Rangá - en það kemur niður á 6. júlí. Þú gætir ekki breytt þeim degi á Selfossi yfir í þann sjöunda? Þá skal ég bjóða þér í Rangárnar. Bestu kveðjur, þinn Sölvi
 
Sæll minn kæri. Ég get nú örugglega fengið annan dag í staðinn. 6. júlí er nú ekki heilagur þó ég hafi verið í Ölfusá þann dag jafn lengi og elstu menn muna. Það væri örugglega gaman að reyna fyrir sér í Eystri Rangá.Ég hringi bara annað kvöld. Fór í Grímsnesið í dag og fann 2 hælanna sem afmarka land óðalsins.Hlýtt en nokkuð hvasst. Ágæt líðan í dag og Raikonen feginn þegar ég kom til baka. Heyrumst, kardínálinn.
 
Maður kemst nú bara í íslenska sumarstemningu við að heyra Grímsnesið nefnt á nafn og Ingólfsfjallið. Samgleðst með ykkur félögunum og feðgum með veiðifiðringinn. Sjálfur fékk ég mína stórundarlegu fullnægju í kvöld með sigri minna manna í Vesturbænum. Gott ef það gladdi ekki meira en nýfengin mastersgráða. Svona er maður nú ,,beisikk".
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online