Thursday, November 15, 2007

 

Enn af tölum.

Ég hef oft talað um dálæti mitt á tölum. Sérstaklega tölunni 13. Stundum spunnist umræður um kvaðratrætur, symmetríu, margfeldi og fleira. Ég hef nú aldrei verið sterkur í stærðfræði. Hrifnari af tölunum en sjálfri matematíkinni. Fyrir 1.021 degi fékk ég bréf frá ungum manni. Langt bréf. Engar tölur í því samt. Nema að þetta var svolítil tala, ræða. Það var mikið í þessu bréfi. Heilmikið af ást, hugleiðingum um sálina, og þennan homo sapiens , sem eru umbúðirnar. Veikleika mannsins og styrk hans. Ungi maðurinn hafði fátt eða ekkert á hornum sér. Kannski pínulítil kergja, ergelsi og vanlíðan. Og í bréfinu lýsti hann skoðunum sínum á hinu og þessu. Einfeldninni og margbreytileikanum. Hinu góða og hinu fúla og leiðinlega. Stundum leikur sérhver maður við hvurn sinn fingur. Það er það besta við lífið sjálft. Ég var sammála flestu í þessu bréfi. Ekki öllu samt. Menn geta t.d. verið ágætir þó á móti blási. Góðir, þó að það liggi ekki vel á þeim nákvæmlega í augnablikinu. Ungi maðurinn sagði undir lok bréfsins að svona horfðu hlutirnir við sér og hann vonaði að ég gæti a.m.k. virt það. Sem ég gerði svo sannarlega. Táraðist svolítið við lesturinn. Eins og í kvöld.Það var þó eitt í þessu bréfi sem varð til þess að ég er að blogga um það núna. Fjölskylda er nú teygjanlegt hugtak. Það eru til fleiri fjölskyldur en vísitölufjölskyldan. Sameinaðar og sundraðar. Það þarf varla að ræða það mikið frekar. En það sem ungi maðurinn sagði orðrétt í bréfinu um fjölskylduna var þetta: Maður situr uppi með fjölskyldu sína sama hvernig hún er - og þykir vænt um hana hvort sem er í veikleikum hennar eða stórfengleika. Ég er sama sinnis og vona að hann sé enn sömu skoðunar.

Við Kimi erum að ganga til náða. Hann reyndar verið milli svefns og vöku í allt kvöld. Svona að venju. Annað sem mér liggur á hjarta bíður þar til síðar, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online