Wednesday, November 21, 2007

 

Titringur.

Jörðin hefur titrað hér undanfarin sólarhring. Nú er allt kyrrt. Enda er kisi orðinn hinn rólegasti á ný. Dýrin eru líklega næmari en við mannfólkið fyrir því óvænta í náttúrunni. Í stóru jarðskálftunum árið 2000 átti ég ekkert húsdýr. En sannarlega var mér brugðið eins og svo mörgum öðrum. Þetta leiðir hugann að því hvar við búum. Erum, og eigum heima. Í landi elds, íss og skjálfta. Þraukum samt áfram á skerinu. Í myrkri og frosti. En við eigum líka ylinn og birtuna. Það breytir öllu. Það er samtengingin milli myrkursins og birtunnar. Við bíðum myrkrið og kuldann af okkur af því að við vitum að það vorar ávallt aftur. Drunginn hverfur og sálin lyftist. Landið ilmar og og það er ekki nokkur leið að verða fúll yfir einu eða neinu. Og alltaf sér maður þetta land í nýju ljósi. Ég kom að Geysi snemma í morgun. Logn og 10 stiga frost. Strókarnir liðuðust þráðbeint upp í himingeiminn. Þó ég væri illa sofinn og svolítið stressaður var þetta indælt og gladdi mitt gamla hjarta.

Svo fékk ég símtal rétt áður en ég hvarf af vinnustað klukkan 5. Það gladdi mig enn meira.
Við kisi minn förum nú svona hvað úr hverju að leggjast útaf þó klukkan sé bara 9. Sendum báðir bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online