Friday, November 02, 2007

 

Ár og dagur.

Gamalt máltæki segir að það sé ár og dagur síðan þetta eða hitt hafi gerst. Í dag eru 6 ár og dagur síðan ég byrjaði að vinna á Fasteignasölunni Bakka ehf. Tíminn líður hratt. En það hefur margt gerst á þessum tíma. Lífið hefur breyst og ég orðinn 6 árum eldri. Það breytir þó ekki því að staða mín er nú miklu betri en 2001. Efnahagslega og andlega. Þegar ég byrjaði að vinna þarna sparkaði ég í afturendann á sjálfum mér. Það er örugglega gott ráð þegar á þarf að halda. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta gerðist. Nýjar vistarverur, bílar og kettir. Svartnættið sem ég þekkti stundum á árum áður að mestu horfið. Tvær spítalalegur breyta ekki neinu í því sambandi. Held því fram að máltækið um að kötturinn hafi 9 líf eigi við um mig. Og þeir sem þekkja mig vita vel að ég gefst ekki auðveldlega upp. Ég hitti minn snilldarlækni á Lsp á miðvikudaginn var. Frábær læknir og að auki einhver sá geðfelldasti sem ég hef kynnst úr þeirri stétt. Menningarlega sinnaður og kunni vel að meta sonnettur Keats. Þýðandi þeirra og gamle far hittumst svo á Café Paris og fengum okkur snarl.Þetta var sannarlega indæll dagur. Skutlaði skáldinu á Þjóðarbókhlöðuna og hélt heimleiðis. Allt bendir til þess að ég sé laus við meinið sem uppgötvaðist fyrir algjöra tilviljun eftir Veiðivatnaförina 12-13. ágúst. Stundum er heppnin með manni. Kannski er það verndarengill? Hollvættur? Innsæið var líka með mér þegar ég kom úr Veiðivötnunum þann 13.

Ég hef stundum kallað köttinn Raikonen húsvörð hér í Ástjörn 7. Enda var hann heima og gætti eigna okkar þegar ég kom heim úr vinnu í dag. Fagnaði mér vel að venju, fékk sér að éta og vissi sem var að nú væri óhætt að skreppa aðeins út í blíðuna. Það er 2. nóvember, hitinn við 10 gráður og allur snjórinn horfinn. Unaðslegt og hvíldarhelgi framundan. Bestu kveðjur frá okkur rauðskinnum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Jamm, þakka fyrir síðast og sendi kveðjur héðan úr Reykjavíkurakademíunni, SBS
 
Sá kvörtun yfir því að það væri ár og dagur síðan ákveðin afkvæmi hefðu kommenterað á hösmagabloggið. Þetta er prufa. Útskýring mun fylgja.
 
Útskýring:
Það er eins með mig og okkur öll að ég er að eldast. Ástæða fyrir auðsýndu áhugaleysi á hösmagabloggi var sú að ég hafði steingleymt aðgangs- og lykilorði að bloggheimi. Ætlaði að nota það sem löggilda afsökun fyrir skorti á kommentum en áttaði mig á því að líklega hafði ég gleymt þessum hlutum vegna þess að ég hafði ekki notað þá í langan tíma. Svona geta löggildir hlutir bitið mann í beran rassinn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online