Tuesday, September 18, 2007

 

Haustregn og blogghlé.

Blautt haust í morgunsárið. Loftið tært og gott að viðra sig. Ilmandi kaffið úr gamla brúna fantinum smakkast vel. Raikonen á rjátli út og inn um gluggann. Líklega skárra að vera innandyra í hlýjunni hjá fóstra sínum þó útiveran heilli nú einnig. Í dag er síðasti vinnudagur Hösmaga í bili. Ætla að bregða mér af bæ í nokkra daga. Skáldið mitt mun hafa tilsjón með dýrinu góða í fjarveru minni. Og það verður því blogghlé uns ég sný heim á ný. Forsetinn mikli fær þá allavega frið á meðan. Ég sá hann á reiðhjóli í gær. Í grænni skikkju með hjálm á höfði. Og ekki heilsaði hann nú fyrrum flokksfélaga sínum þar sem hann hjólaði framhjá honum reykjandi vindil fyrir utan vinnustaðinn. Og það merkilega er að ég get nú alveg á heilum mér tekið þó þessi bráðgáfaði snillingur hafi ekki virt mig viðlits. Hann var þungur á brún. Ég hugsa að skýringin sé jafnvel sú að niðursuðudósin sé enn að vefjast fyrir honum. Og menn verða nú að sýnast ábúðarfullir í svona virðingarstöðu. Skárra væri það nú. Svo er líka fullt af fábjánum að þvælast fyrir áformum þessa ofvita. Fólk sem skilur ekki snilldina og er ekkert nema hortugheitin og vanþakklætið. Shit barasta.

Skáldið lagði land undir fót í gær. Á grænu þrumunni. Norður í Refasveit með veiðistöng í farteskinu. Hafði samband símleiðis í gærkvöldi og sagði fréttir af veiði. Einn á landi en sá stóri tapaðist. Hafði betur og verður ógleymanlegur. Það er gamla sagan. Ég er enn að hugsa um stóra Laugarbakkalaxinn frá 8. júlí 1992. Sem er enn að stækka í huga mér. Þannig er það hjá gömlum veiðirefum. Ævintýrin ljóma í hillingum. Það er unaðslegt. Svo þraukum við veturinn og nýtt ár gefur fyrirheit um ný ævintýri. Þannig er það og þannig mun það verða. Hlakka til að hitta skáldið mitt að áliðnum degi og fá söguna alla. Við Kimi sendum ykkur bestu kveðjur úr haustþokunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online