Tuesday, September 11, 2007

 

Syndaflóð.

Nú hellist regnið úr loftinu með miklu offorsi. Svo sem allt í lagi. Við Kimi í góðu skjóli hér innandyra og höfum það þrælfínt eins og flesta aðra morgna. Og svo er líka gott að geta bara hringt í Jón forseta og beðið hann að skrúfa fyrir ef þetta verður of mikið. Hann munar örugglega ekkert um það frekar en önnur kraftaverk. Sbr. færslur um rennsli Ölfusár, jarðskjálfta, skuggavarp og fleira. Ég hef ekkert frétt af honum enn varðandi niðursuðudósina. Enda kannski ekki sanngjarnt að ætlast til stórtíðanda af uppfinningum og kraftaverkum á hverjum degi. En það er við öllu að búast í þeim efnum því hann hefur 4 vitringa sér til fulltingis.

Klukkan er að verða 7 að morgni og orðið svona nokkurnveginn sauðljóst. Þessi sami þungi niður tímans heldur áfram eins og ég hef svo oft minnst á áður. Jafndægri á hausti sunnudaginn 23. september. Þá erum við hálfnuð í mesta svartnættið. Stysta daginn og síðan smátt og smátt inní nýja vaxandi birtu. Meira að segja forsetinn mikli getur ekki breytt þessari staðreynd þó honum sé fátt ómögulegt. Ég hef enn góða tilfinningu fyrir næsta ári. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að framkvæmdir á fyrirheitna landinu eru ekki hafnar enn. Við skáldið mitt og Helga gengum á landið fyrir hálfum mánuði. Lyngið var mjúkt og hlýtt og þar var heilmikið af berjum. Það verður ekki ónýtt að geta lesið sér ber við kærleikskotið á haustdögum næstu árin. Ég var með hugleiðingar um daginn að selja þetta land. Til þess lágu ákveðnar ástæður. Eftir heimsóknina var þessum hugleiðingum endanlega blásið burt. Landið verður áfram í eigu Hösmaga. Og síðar afkomendanna. Það er ljúft og gott að hugsa til þess. Rætur Búrfells teygja sig ofaní þetta fyrirheitna land. Þetta fjall hefur stoð í landinu og landið nýtur góðs af þessu fallega fjalli. Og hinu megin Sogsins brosir Ingólfsfjall til nágranna síns. Þannig mun það verða um ókomin ár.

Kaffið hefur runnið ljúflega niður að venju. Svaladyrnar standa opnar og ferska loftið streymir í gegn. Kimi sýnir rigningunni lítinn áhuga. Hefur hringað sig og sofnað í skotinu sínu hér fyrir aftan mig. Tófti september verður ágætur þó hann verði svolítið blautur. Það verður kaupsamningur hjá mér í vinnunni klukkan 4. Sérlega ánægjulegur. Ella amma á Húsatóftum er að kaupa sér hús hér. Þá getur Siggi Þráinn, lambakóngurinn minn, slegið 2 flugur í einu höggi þegar hann kemur á Selfoss. Og nú er fyrsta barnabarnið mitt orðið stud jur. Það er líka sérlegt gleðiefni. Við Kimi sendum ykkur öllum blautar haustkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online