Saturday, September 08, 2007

 

Dósaskerinn.

Jón forseti brosti aftur breitt í gær. Þá tókst honum að finna upp dósaskerann. En brosið hvarf fljótlega af andlitinu. Hann veit nefnilega ekki enn hvað á gera við þetta áhald. En það lagast eftir helgina. Þá finnur hann upp niðursuðudósina og getur notað þetta snilldarverkfæri. Vonandi rifnar ekki út úr munnvikunum við það.

Nú höfum við kallað herlið okkar heim frá Írak. Bara nokkuð snöfurmannlegt framtak hjá ISG. Eitt prik fyrir það. En utanríkisráðherrann er haldinn sömu þráhyggjunni og 2 síðustu fyrirrennarar. Ísland á að fá sæti í öryggisráði SÞ. Nú þegar hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljóna. Boðuð er mikil herferð sem standa á næstu 12 mánuði. Þar fara nokkur hundruð milljónir í súginn í viðbót. Við höfum nákvæmlega ekkert að gera þarna. Einar Oddur Kristjánsson, sá orðsnjalli maður, lýsti áliti sínu á þessu montbrölti vel í sjónvarpinu. Yfirgengilega fáfengilegt og vitlaust. Bruðl með fjármuni til einskis. Í fyrsta lagi mun okkur aldrei takast að komast þarna inn. Sem betur fer segi ég. Og í öðru lagi, jafnvel þó það tækist, er það okkur einskis virði. Alla þessa fjármuni á að nota til skynsamlegri hluta. Einvernveginn virðast valdamenn þessarar þjóðar halda að við séum eitthvað miklu meira en við erum. Svona stórveldisdraumahugur. Kannski pínulítið í sömu átt og meirihluti bæjarstjórnarinnar hér. Selfoss að verða miðja alheimsins. Aðvitað þarf slíkur bær háan turn beint ofan á miðju jarðskjálftasprungunnar við brúarsporðinn. Þegar hégómi , heimska og valdasýki sameinast, er ekki von á góðu. Það sanna þessi 2 dæmi mjög vel. Ef við myndum nota peningana sem við eyðum til einskis vegna framboðsins til þróunaaðstoðar við fátækar þjóðir, myndum við vinna okkur inn miklu fleiri stig á alþjóðavettvangi. Það virðist langt í land að íslenskir stjórnmálamenn geri sér grein fyrir raunverulegri stöðu sinni. Ef það er ekki sleikju- og undirlægjuhátturinn er það stórmennskubrjálæðið. Hvorttveggja skaðlegt í meira lagi.

Eftir sólskin í morgun er komin þoka. Yndislegt haustveður samt sem áður. Eftir nokkurt hlé fór undirritaður í skoðunarferð um bæinn snemma morguns. Ljúft að venju. Og Kimi birtist kátur á planinu hér fyrir utan þegar fóstri kom til baka. Skottið þráðbeint uppí loftið. Kannski kemur hér óboðinn gestur að næturþeli. Maturinn úr dallinum hverfur ískyggilega hratt. Eða Kimi bara svona þurftarfrekur þessa dagana. Veðrið gott til útiveru fyrir menn og ketti. .Gott mál. Við hér í íbúð 205 sendum ykkur bestu haustkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þarna er enn einu sinni blæbrigðamunur á skoðunum okkar, nafni. Ég lít nefnilega ekki á það sem sóun að við tökum virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Það er þvert á móti skylda okkar að þiggja ekki bara í alþjóðasamstarfi heldur gefa líka. Þess vegna finnst mér framboð til Öryggisráðsins vera hið besta mál.
Auðvitað er það hins vegar allt saman háð því að við Íslendingar ætlum að reka þar sjálfstæða utanríkisstefnu en vera ekki taglhnýtingar USA eins og við höfum yfirleitt verið. En ég held að núverandi utanríkisráðherra sé sá líklegasti í nokkuð langan tíma til að hverfa af braut USA-flaðursins. Og þetta segi ég ekki vegna ákveðins dálætis míns á stjórnmálamanninum ISG. Þetta held ég í raun og veru.
Hvernig myndi líka fara ef að allar þjóðir litu á svona framboð sem bruðl og óþarfa? Hverjir væru þá til að standa upp í hárinu á stórveldunum?

Bestu kveðjur frá Chile.
 
Sæll nafni góður. Við erum að taka þátt í alþjóðasamstarfi á fjölmörgum sviðum eins og okkur ber að gera. Þar erum við ekki bara að þiggja. Þú veist jafnvel og ég að stórveldin ráða öllu sem þau vilja hjá SÞ. Það hefur verið þannig og verður þannig áfram.Framboð okkar til setu í öryggisráðinu er bara mont og prump. Eftirsókn eftir vindi. Eins og ég sagði ættum við frekar að verja þessum miklu peningum til að hjálpa fátækum þjóðum. Verkefnin eru óteljandi og við eigum þekkingu og mannskap sem væri betur komin á þeim vettvangi. Það hefur sýnt sig frá upphafi að enginn stendur uppí hárinu á stórveldunum sem ráða öllu hjá SÞ. Við munum engu breyta þar um. Þetta er allavega mín sýn á þessa hluti. Við skulum hætta þessum mannalátum og nýta peningana til góðra verka á alþjóðavettvangi.Bestu kveðjur til Suður ameríkuþ
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online