Saturday, September 15, 2007

 

Sauðir.

Eftir vinnu í gær skrapp ég upp að Birtingaholti. Þegar komið var upp fyrir Reykjaréttir var mikið af sauðfé á veginum. Einnig menn og hross. Hrepparéttir voru í gær og Skeiðaréttir í dag. Mér fannst skemmtilegt að mæta öllum þessum fénaði. Þarna var t.d. ákaflega tignarlegur hrútur. Hyrndur í betra lagi. Kannski vaninhyrndur. Og það var langt í frá að það væri nokkur sauðarsvipur á þessum grip. Þessi dýrategund er nú ekki talinn vera neitt ofhlaðinn gáfum. Sbr. orðatiltæki að þessi og hinn séu nú óttalegir sauðir. Ég þekki nú ekki inniviði heilabúsins í sauðkindinni. Finnst nú samt vænt um hana eins og flest önnur dýr. Þarna var hvít ær með svartan hnakk. Tvær svartar skellur aftan við hnakkinn og hálsinn og hausinn var í sama lit. Þetta var ákaflega falleg skepna. Og vitað af því. Hnarreist og fráneygð.Á heimleiðinni þurfti ég aftur að lötra. Komst þó heim með þolinmæðinni. Þar voru þeir Bjarni Harðarson og Róbert Marshall að rífast í kastljósi sjónvarpsins. Róbert þessi er fallkandidat SF úr síðustu kosningum. Bjarni náði þó þokkalegu kjöri. Róbert var gerður að aðstoðarsamgönguráðherra í sárabætur. Bjarni hafði nú leyft sér að gagnrýna samgönguráðherrann. Það má að sjálfsögðu ekki. Hann fékk stóra drullugusu yfir sig frá aðstoðarmanninum. Stundum þola menn ekki að heyra sannleikann. Þá er gripið til skítadreifarans eins og bændurnir gera á áliðnum vetri. Þetta er þekkt aðferð hjá SF.Og framsóknarflokknum líka. Bjarni er nú ekki alveg saklaus í þessum efnum. Kannski eru þeir bara óttalegir sauðir, báðir tveir.

Það er eiginlega hálfgert skítaveður hér. Kalsi með rigningu og dimmt í lofti. Við Kimi höfum það fínt hér. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu og höldum rólyndinu. En Jón forseti er orðinn órólegur. Enn með dósaskerann í lúkunum og botnar ekki neitt í neinu. Dósin enn að vefjast fyrir kauða. Ég gef honum helgina og afskrifa hann svo alveg.

Rólegheit framundan. Kannski tekst mér að ljúka einhverju af óloknum verkum hér heimafyrir.Það er alltaf notalegt að slappa af að góðum verkum loknum. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online