Tuesday, September 04, 2007

 

Strjálingur.

Miðað við venjulegt bloggæði Hösmaga má segja að nú sé bara eitt og eitt á stangli. Ég hef nú stundum sagt að bloggiðjan má aldrei verða að kvöð. Hún hefur heldur ekki verið það hjá mér. Ef svo væri yrði það ekkert annað en puð og basl, japl jaml og fuður. En bloggið er ágæt tómstundaiðja svona með öðru. Vertíð Fiskihrellis lokið að sinni og nú verður beðið næstu vertíðar.
Pakkhúsið verður að víkja samkvæmt nýja skipulaginu. Ég skoðaði pakkhúsið í vetur samkvæmt beiðni. Það er hluti af starfi mínu sem fasteignasali. Þetta hús er í mjög góðu ásigkomulagi. Þegar það var byggt var framleidd alvöru steypa á Íslandi. Og það var sett mikið af steypustyrktarjárni í þetta hús. Ragnheiður bæjarstjóri yrði lengi að vinna á því með handverkfærum. Kannski ætlar hún bara að sprengja það í loft upp. Það er auðvitað hreint brjálæði að ætla sér að eyðileggja þetta ágæta hús. Ekki bara vegna þess að það á sér langa og merkilega sögu heldur er það slík sóun á verðmætum að engu tali tekur. Vitringana munar líklega ekki um einn kepp í sláturtíðinni. Þetta hús er ekki fyrir neinum. Mörgum finnst vænt um það. Ég man vel eftir lykt af kolum og grásleppu í þessu húsi. Hundruð eða þúsundir manna hafa unnið í þessari byggingu. En það er fyrir vitringunum 5. Og ef til vill ekki síst forseta bæjarstjórnarinnar. Ég sá mynd af Jóni forseta í einhverju blaði í síðustu viku, Glugganum líklega. Hann var þar ásamt öðrum manni sem ég man ekki hver er. Og forsetinn brosti breitt. Það er svo ljúft fyrir suma að vera við völd. En svo var mér sagt að brosið stafaði af allt öðru.Daginn sem myndin var tekin uppgötvaði þessi brosandi snillingur að hann hefði fundið upp hjólið daginn áður. Það er nú stundum brosað af minna tilefni.

Það er haustlegt en þó bærileg tíð. Sýnishorn af íslensku veðri á þessum árstíma. Óhemjuslagveður með köflum í gær en nú skín sólin og kári leikur sér að laufunum. Og lífið hjá okkur Kimi svipað og áður. Rólyndi yfir báðum. Vinnuvikan hálfnuð á morgun og bara nokkuð líflegt á þeim slóðum.Þröstur mætti hinn hressasti með sólbakaðan skallann eftir dvöl á Mallorka. Sem sagt gott, bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við þetta má auðvitað bæta að þarna verða miklar menningarslóðir að engu, enda gamla sláturhúsinu, versluninni Höfn og nálægum byggingum lýst af miklu listfengi í ónefndri skáldsögu sem skrifuð var fyrir fáeinum árum og gerist í Selfossbæ. Nú er þetta meira og minna rifið og enn bætist við. Hvers á maður að gjalda!?
 
Þú þarf þá bara að láta kort af sögusviðinu fylgja í næstu útgáfu bókarinnar, Sölvi. Svona eins og Einar Kára gerði í Djöflaeyjunni.
Kveðjur til ykkar feðga (og Sölvi, mig þyrstir í bréfstúf frá þér).
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online