Wednesday, June 06, 2007

 

Liðleskjur.

Ég fór á kynningarfund í gærkvöldi. Um nýjustu tillöguna um uppbyggingu miðbæjar hér á Selfossi. Þessi fundur sannaði enn fyrir mér hverskonar hörmungarbæjarstjórn við Selfyssingar höfum nú. Eða við Árborgarar. Þetta er gamla og þreytta liðið sem Jón Hjartarson bæjarfulltrúi VG kom til bjargar í desember. Reyndar lít ég ekki á hann sem bæjarfulltrúa VG lengur. Hann hefur sýnt það og sannað að hann fer einungis eigin leiðir í bæjarstjórninni. Ef nokkur manndómur væri í honum bæðist hann lausnar nú þegar. Hann er nú í gapastokknum með hinum í meirihlutanum. Samningurinn við Miðjuna, companýs Einars Elíassonar, sem fyrrverandi bæjarstjórn SF og framsóknar gerði, mun reynast dýrkeyptur. Hversvegna Jón Hjartarsson hefur flækt sig í þessi afglöp er mér og mörgum öðrum hulin ráðgáta. Það eru örugglega fáir, ef nokkrir, sem kusu hann 2006, sem styðja hann í verkum sínum nú. Það sama gildir líka um skipulagsafglöpin í mjólkurbúshverfinu. Íbúarnir þar héldu að eitthvað væri að marka það sem þessi maður segði. Því miður fyrir þá og marga aðra var það bara ekki rétt. Það er nefnilega, eftir kalt mat þessa snillings, ekki ábyrg stjórnsýsla að standa við orð sín. Það er sagt að of seint sé að iðrast eftir dauðann. Ég kaus þennan mann í kosningunum í fyrra. Það gerði ég í góðri trú um að ég leggði mitt lóð á vogarskálarnar til að fella bæjarstjórnina. Hún beið afhroð í kosningunum og missti 3 bæjarfulltrúa. Nokkrum mánuðum síðar kastar svo fulltrúi VG björgunarhringnum til yfirstrandkafteinsins sem nú er orðinn bæjarstjóri á ofurlaunum. Hvernig hefði nú verið að þessi" lýðræðissinnaði" fulltrúi VG hefði óskað eftir félagsfundi til að ræða málin? Heyra hljóðið í þeim sem kusu hann. En það hentaði honum auðvitað ekki. Skoðanir okkar margra koma honum ekki við. Ef hann viðurkenndi mistök sín og segði af sér ekki seinna en nú þegar er kannski einhver von að VG geti boðið fram hér í næstu bæjarstjórnarkosningum.Ég er reyndar viss um að Jón Hjartarson segir ekki af sér. Hann mun sennilega iðka "ábyrga stjórnsýslu" með lúserunum í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Verði honum að góðu.

Kári er öflugur þessa dagana. Hitastigið reyndar rúmar 11 gráður. Þurrt í dag eftir mikið grasveður í gær. Starfið á fasteignasölunni gengur vel. Þá eru dagarnir fljótir að líða og ánægjan ríkir. Ég hef sagt frá því áður að ég vinn í sögufrægu húsi í miðbæ Selfoss. Það er rúmlega 70 ára gamalt en núverandi eigandi hefur gætt þess vel. Ef núverandi bæjarstjórn fengi að ráða yrði það jafnað við jörðu. Og þegar Árni Valdimarsson spurði um það á fundinum í gærkvöldi hvort bæjarstjórnin hér væri að vinna fyrir íbúa þessa bæjarfélags eða Miðjumenn móðgaðist bæjarstjórinn. Ég vona að þessi bæjarstjórn hafi ekki alveg bitið úr nálinni í samskiptunum við vin minn Árna Vald. Það fer ekki milli mála hvar ég stend í þeirri baráttu. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online