Tuesday, June 12, 2007

 

Góðir dagar.

Í gær fór hitinn hér í 19,9°. Heldur svalara í dag eða 15,9°. Það styttist í Jónsmessu og þetta eru yndislegir dagar. Maðkaleyfið í höfn eftir heimsókn til sómahjónanna á Mánavegi í síðustu viku. Hálendisleiðangur á morgun og ég hlakka mjög til að koma í Landmannalaugar á ný. Ákaflega notalegur staður og náttúrufegurð mikil. Leiðin austur Fjallabak í Eldgjá er líka ákaflega skemmtileg. Að vísu er allmikið vatn á þessari leið en það kemur nú lítið að sök á grænu þrumunni. Þetta er nú bara dagsferð svo Eldgjá bíður. Það er eins og þessi árstími endunýji frumurnar í sálinni. Og örugglega í gömlum skrokkum einnig. Kannski verður hægt að komast um Dómadal til baka.Heillandi leið og landslagið sumstaðar hrikalegt. Á laugardaginn tók ég reyndar smáforskot á sæluna og komst inní Fellsendavatn. Þaðan er nú bara spölur í Veiðivötnin. Þau og Himbriminn, stórurriðinn og töfrarnir bíða í bili. Ekki varð ég nú var við fisk í Fellsendavatni. Skipti mig svo sem ekki miklu því ég naut góðrar útiveru á ágætisveðri. Kíkti svo á uppistöðulón Sultartangavirkjunar í bakaleiðinni. Við heimkomuna fagnaði mér lítið dýr. Gott að vita að einhver skuli stundum sakna manns. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online