Friday, June 15, 2007

 

Fegurð himinsins. Og svört ský..

Við skáldið gerðum góða ferð í Landmannalaugar á miðvikudaginn var. Veðrið var mjög gott og jafnvel hlýrra þarna á hálendinu en hér á flatneskjunni. Dómadalsleiðin orðin greiðfær og Sölvahraunið enn á sínum stað. Við tókum daginn í rólegheitum. Slakir og ánægðir á þessum slóðum. Því miður var eldri sonurinn bundinn af öðru þennan indæla og fallega dag. Bætum það upp síðar. Við komum aftur á Selfoss um hálftíuleytið alsælir með daginn. Sölvi hélt til síns heima og undirritaður stuttu síðar undir sæng sína. Svaf vel og lengi og mætti óvenjugalvaskur til vinnu í gær. Þetta er nú ekki amaleg byrjun á útiveru sumarsins. Aðeins 12 dagar í laxinn og það er sérlega indælt líka.

Það eina sem plagar verulega nú um stundir er meirihlutinn í bæjarstjórninni hér. Nýjasta afrekið er að fella tillögu minnihlutans um að íbúarnir verði spurðir um álit. Meirihlutinn segir tillöguna vera tímaskekkju. Líklega er lýðræði bara tímaskekkja í augum fulltrúa framsóknar, SF og VG. Það er ljótt að segja það en ég er farinn að halda að fólkið í meirihlutanum hafi allt smitast af einhverskonar fávitabakteríu. Varla er það allt fætt svona. Við höfum nú hér Hótel Selfoss í miðbænum. Eina ljótustu byggingu heimsbyggðarinnar. Að vísu ber meirihlutinn ekki ábyrgð á henni. Nú er búið að brjóta niður Krónuhúsið og gamla sláturhús Hafnaríhaldsins. Það sér enginn eftir þeim byggingum.Hefði verið upplagt að afmá Hótelið í leiðinni. En sumum okkar er nú ekki sama hvað kemur í staðinn. Þar og í tengslum við þær byggingar hér við sporð brúarinnar. Af hverju má ekki spyrja íbúana hér álits? Af hverju þarf að keyra þessa dellu í gegn með eins miklum hraða og hægt er? Ef ég væri trúmaður myndi ég biðja um að viti yrði komið fyrir vesalingana sem nú hafa tögl og hagldir í bæjarstjórninni. Það er þó líklega borin von til þess að þeir breyti um stefnu. Vegurinn til baka er þó fær ennþá. Miðjusamningurinn er ekki heilagt plagg. Kannski eru fulltrúar framsóknar og SF nú loksins að átta sig á hvernig Miðjumennirnir snéru á þá fyrir kosningarnar í fyrra. Þeir eru nú í gapastokknum með Jóni Hjartarsyni. Hvernig væri að taka afleiðingum gerða sinna? Láta kjósa um málið. Það liggur nákvæmlega ekkert á. Hér eru engar náttúruhamfarir. En þær verða hér af mannavöldum ef stefna meirihlutans nær fram að ganga. Tökum hagsmuni íbúanna framyfir hagsmuni örfárra peningamanna. Allir núverandi bæjarfulltrúar meirihlutans eru gjörsamlega útbrunnir og á útleið úr pólitíkinni. Minnisvarðinn sem þeim er svo umhugað um að reisa sér verður bara skipulagt kaos steinkumbalda, bílastæða og umferðaöngþveitis. Það er aldeilis glæsileg framtíðarsýn. Eða hvað?

Nóg um þetta hörmungarlið í bili. Helgi og þjóðhátíð að ganga í garð. Við Kimi verðum bara slakir í Ástjörninni. Kannski ég ætti að taka hann með mér í bíltúr. Hösmagi minn kom stundum með mér í bíl og það gekk ágætlega. En Kimi er sérstakur. Líklega bestur heimafyrir.Góðar kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online