Friday, June 08, 2007

 

Fjallaloft.

Það er nú afráðið hjá okkur feðgum að halda til fjalla á miðvikudaginn. Það er 13. dagur júnímánaðar og ekki ætti það að spilla för. Ég hefi fengið það staðfest að nú sé orðið fært í Landmannalaugar en líkast til ekki í Kirkjufellsvatn. Vatnið er u.þ.b. 15 km austan við Laugarnar, á leiðinni austur í Eldgjá. Sú leið bíður því betri tíma. Vonandi er ísinn farinn af Frostastaðavatni og Dómadalsvatni. Nú hefur verið nokkuð hlýtt í nokkra daga og spáð er verulegum hlýindum á mánudag og þriðjudag. Stangirnar eru farnar að titra í bílskúrnum og græna þruman ólm í að komast af stað. Eins og udirritaður. Í mörg ár hef ég ætlað í Landmannalaugar en einhvernveginn hefur það orðið útundan. Þessi för er því tilhlökkunarefni og ef eitthvað veiðist er það að sjálfsögðu góður bónus á ferðalagið. Kimi verður herra hússins á meðan. Hann fær vel í skálar sínar að morgni og gætir eigna fóstra síns. Ekki amalegt að hafa slíkan húsvörð. Það er nú orðið nokkuð síðan undirritaður hefur eytt heilum degi með sonum sínum. Nóg að gera hjá öllum og því ágætt að geta skotist til fjalla svona einn dag á þessum indæla árstíma. Þegar þú kemur heim úr slíkum leiðangri ertu ef til pínulítið þreyttur. Sofnar enn betur og vaknar að morgni hlaðinn nýrri orku. Og svo kemur laxinn, Veiðivötnin og allt hitt. Það er sem sagt létt yfir Hösmaga gamla í dag. Helgarfrí og rólegheit. Kannski einhver heimavinna með góðri samveru við Kimi hinn rauðhærða. Og svo hyggst ég skreppa upp að Syðri-Brú og líta á óðal mitt. Vonandi fer að draga til tíðinda þar. Kærleikskotið enn í hillingum. Það verður þó að veruleika þó síðar verði. Teikningin fundin og það er áfangi. Með sumarkveðjum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online