Sunday, June 24, 2007

 

Jónsmessa.

Nú er þessari sumarmessu rétt nýlokið. Raikonen gallharður á að fóstri ætti að vakna og opna gluggann. Snöggur að demba sér út í vornóttina, milda og gefandi. Framtíðarlandið var líka gefandi á Jónsmessunótt. Varla að niður Sogsins bærist eyranu. Tveggja tíma svefn þessa nótt er kappnógur ef hugarfarið er rétt. Og núið er dásamlegt. Gangrimlahjólið snýst þó áfram. Við vitum það og mikilvægt að sætta sig við það. Dásemdir sumarsins eru flestar eftir. Góð byrjun með skáldinu í fyrstu hálendisferðinni. Nokkrar bröndur, ljúft veður og fegurð Landmannalauga söm og áður. Góð heimkoma eftir indælan dag. Það er nú rólegt yfir veiðinni í Ölfusá. Aðeins 4 laxar komnir á land. Kannski er hann að bíða eftir mér? Á miðvikudaginn. Það kemur ekki deigur dropi úr loftinu og lítið um ánamaðkinn. Hösmagi hyggst beita öðrum ráðum. Túpan góða, Æskrím étur hann fær að reyna sig. Abdúlla reykir, icecream étur hann, er ekki sál hans skrýtin vítahringur. Útiveran við ána mína góðu verður allavega góð. Margs að njóta á árbakkanum. Nokkuð fjölbreytt fuglalíf sem alltaf er gaman að fylgjast með. Það er sem sagt tilhlökkunarefni að hefja laxveiðitímabilið. Best gæti ég trúað að eitthvað skemmilegt gerðist. Veiðigyðjan hefur oft gengið í lið með mér. Brauðstritið gleymt og grafið þennan dag og gott að fá sér lúr í hinu daglega hléi. Nýveiddur Ölfusárlax þykir nú ekki slormeti. Soðinn á einfaldasta hátt, kartöflur og smjör. Svo getur fólk haft annað meðlæti ef vill. Hitt er þó nóg enda bragðið sérstaklega gott. Nú hafa flest net verið tekin upp svo það verður slegist um hvern fisk. Margir hafa lagt leið sína til Selfossbænda að sækja sér nýmeti í soðið. Nú verður þar Snorrabúð stekkur og stangveiðimenn finna til þess nú þegar. Ég hlakka til og sá fyrsti verður sami happafengurinn og jafnan áður.

Meirihluti bæjarstjórnarinnar situr fast við keip sinn. Ætlar að nauðga nýja miðbæjarskipulaginu í gegn. Við hin söfnum liði og munum þvinga hana til lýðræðislegra vinnubragða. Það er ömurlegt að það skuli vera svokallaður vinstri meirihluti sem vinnur svona. Ég hefði betur hlustað á viðvörunarraddir um fulltrúa VG í fyrra. Nú hreykir hann sér eins og hani á haug á vegtyllunni sem forseti bæjarstjórnar. Vinnur þvert á stefnu VG í umhverfismálum og skeytir engu um skömm né heiður. Fari hann í fúlan pytt, rass og rófu.

Kominn tími til að liðka fætur sína. Reyndar er gamli Faxi klár í slaginn að nýju. Ný ventilgúmmí og loft í dekkjum. Reiðhjólið Icefox stendur við hlið grænu þrumunnar í bílskúrnum. Faxi gæti sem best sagt: Hér er ég, fús til ferða. Við verðum góðir saman í sumar. Jónsmessukveðjur til ykkar allra frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online