Thursday, June 28, 2007

 

Niður með KR.

Ég heyrði af hávísindalegri könnun nú í vikunni. Það hefur sem sagt komið í ljós að gengi KRinga í knattspyrnunni hefur fylgni með laxveiði í gegn um árin. Þegar þeir eru á rassgatinu eins og nú í ár gengur laxinn ekki í árnar. Ég ætti því kannski heldur að hrópa áfram KR. En þetta eru nú óttaleg prumphænsn sem ekkert geta í boltanum. Á einhvern óútskýranlegan hátt tókst þeim þó að vinna Fram í gærkvöldi. Það er ört stækkandi straumur nú og ég á veiðidag á morgun. Ef ég fæ ekki lax kenni ég KRingum um. Flestum er nú kunn snilld mín við þessa skemmtilegu iðju. Þekktur fyrir að galdra upp lax úr steindauðu vatni. Jafnvel þó KR sé gjörsamlega í skítnum. Nafni minn hefur örugglega orðið glaður eftir sigur sinna manna. Ég fyrirgef honum nú aðdáunina á þessu liði. En það er einungis vegna fóstbræðralagsins við skáldið mitt. Ég hef svo sem ekki mikinn áhuga á knattspyrnu. Finnst þó í lagi að horfa á markaregn annað slagið. Get ómögulega skilið fólk sem nennir að horfa á 20 fíleflda karlmenn þvæla boltatuðru á milli lappanna í hálfan annan klukkutíma og koma henni aldrei í netmöskvana. En svona er þetta. Þórbergur Þórðarson skildi ekki þrístökk. Fannst það yfirmáta fáfengileg og heimskuleg íþrótt. Ég hef alltaf haft mikið dálæti á meistaranum. Þegar ég varð íslandsmeistari í þessari íþróttagrein árið 1963 var ég ekki byrjaður á Þórbergi. Og ég var hættur iðkun íþrótta þegar ég las texta meistarans um þrístökkið. Verðlaunapeninginn á ég þó enn og finnst vænt um hann. Miklu meiri heiður að honum en orðu frá Ólafi Ragnari. Kannski hengi ég hann á mig þegar ég verð sjötugur.

Vera mín í VG varð ekki mjög löng. Ég gekk í flokkinn í október á síðasta ári. Ég sagði mig úr flokknum í gær.Skoðanir mínar á pólítíkinni hafa þó ekkert breyst. En ég vil ekki vera í sama flokki og Jón Hjartarson bæjarfulltrúi VG í Árborg. Nei takk. Kannski geng ég bara í flokkinn aftur þegar forustumenn hans hafa manndóm í sér til að reka Jón úr honum. Ef hann fær að halda niðurrifi sínu áfram með leifunum af gömlu bæjarstjórninni fær VG ekki mörg prik hér í næstu kosningum. Kannski get ég ekki rekist í neinum flokki. Ég læt sannfæringu mína ráða. Hagsmunir þessa bæjarfélags eru langtum ofar öllum flokkshagsmunum í mínum augum. Garðar og græn svæði eiga ekki uppá pallborðið hjá núverandi bæjarstjórnarmeirihluta. Hann ætlar að byggja 270 blokkaríbúðir hér við brúarsporðinn. Og 11 hæða turn fyrir fyrir sjálfan sig. Líklega með fundarsal á efstu hæðinni svo hann geti horft niður á pöpulinn á götunni. Þetta eru skemmdarverk á þessum fallega og oftast friðsama bæ. Við skulum heldur byggja upp miðbæ með garði, torgi, vinalegum verslunum, veitingahúsum og menningarstarfsemi.. Við viljum ekki steinsteyptan Kínamúr. Skipulagt kaos með tilheyrandi umferðaröngþveiti. Ég heiti á allt gott og skynsamt fólk að koma í veg fyrir þessi fáránlegu áform.

Sólin vaknaði á undan mér í morgun. Brosir nú sínu breiðasta og dásamlegur föstudagur runninn upp. Veiði og frí um helgina. Við Kimi sendum öllum, líka KR aðdáendum, okkar bestu morgunkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, nú kemur laxinn.
En þú munt þurfa að hafa fyrir honum, eins og KR þurfti að hafa fyrir sigrinum í gær.
Annars er það rétt að hobbí eru flest fremur hallærisleg ef markmið manna er að finna einhvern annan tilgang í þeim en bara skemmtunina sem í þeim felst.
Þannig hef ég til dæmis lengi dáðst að langlundargeði ykkar feðga við árbakkana því að ég hef ekki nándarnærri sömu þolinmæði við þá iðju. Hins vegar er ég alltaf jafnspenntur fyrir því að mæta á fótboltaleik, jafnvel þó að sjö á undan hafi tapast. Svona er þetta misjafnt.

Íslandsmeistari í þrístökki 1963, segirðu? Þú lumar á ýmsu. Var Vilhjálmur þá hættur að keppa?
 
Já, þau eru mörg afrek mín. Vilhjálmur hætti árinu áður. Keppti við hann 1962. Hann var ákaflega ljúfur við mig, klappaði mér á öxlina og sagði mér til. Ég var einn af 189 áhorfendum sem sá Vilhjálm jafna þágildandi heimsmet í þrístökki á Laugardalsvellinum 1960. Hann varð 5. á ólympíuleikunum í Róm þá um sumarið. Allar aðstæður í gamla daga voru handónýtar miðað við það sem nú er. Svo gekk brauðstritið fyrir. Þegar ég náði titlinum 1963 var það að kvöldi til. Þá hafði ég stritað í timburburði og ýmsu fleiru allan daginn. Sem ég sæi fólk láta bjóða sér það nú. Þetta var stuttur og skemmtilegur tími og ég náði þó allavega að verða efnilegur. Og áfram nú KRingar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online