Monday, June 18, 2007

 

Súld og orður.

Nú súldar hann aðeins. Þetta mætti nú verða að verulegri rigningu þegar líður á daginn. Þá koma stóru ánamaðkarnir uppúr jörðinni til ástaleikja. Og vondur karl kemur til að hremma þá við þessa indælu iðju. En það er gamla sagan. Eins dauði, annars brauð. Veiðin hófst í Ölfusá á laugardaginn. Fyrsti laxinn var 16 pund að þyngd. Skínandi björt og falleg hrygna. Það veit vonandi á gott fyrir sumarið. Skrapp í Garðabæ um kvöldið og samfagnaði meistaragráðunni með eldri syninum. Indælt þar eins og venjulega. Leti í gær. Formúla og handbolti og síðan leit ég við í Grímsnesinu í gærkvöldi. Fyrirheitna landið á sínum stað. Kærleikskotið er nú ekki risið. Skáldahöllin, þar sem hin ódauðlegu verk eiga eftir að verða færð í letur. Er ekki sagt að góðir hlutir gerist hægt? Þeir gerast nú samt. Undir fjallinu sem er heljarmikið þó það virki bara eins og þúfa héðan úr norðurglugganum í Ástjörn 7.
Það var orðuboð á Bessastöðum í gær. Forsetinn hefur vart undan við staðfestingar á mannkostum og afrekum. Mér hefur stundum verið hugsað til þessarar hefðar. Að upphefja sumt fólk fyrir að hafa mætt í vinnuna. En líklega eru sumir bara miklu merkilegri en aðrir og eiga rétt á staðfestingu á því. Geta svo skreytt sig með glingrinu á tyllidögum. Við hin bara eins og óskreytt jólatré. Svona er nú ranglæti heimsins yfirgengilegt. Einhvernveginn er ég samt slakur yfir orðuleysinu. Líður bara alls ekkert illa þó ég hafi verið sniðgenginn þarna suður á Álftanesi. Þrátt fyrir öll afrek mín í lífinu til þessa. Veiðimennsku, þrístökk og skáksnilld svo eitthvað sé nefnt. Ég vona að orðuþegar gærdagsins hafi gengið glaðir til náða í gærkvöldi. Enn betra fólk en áður.

Við Kimi erum báðir hressir. Í góðu skapi og tilbúnir til átaka dagsins. Biðjum fyrir bestu kveðjur til alls heiðursfólks, með eða án orða, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eru ekki orður veittar næst á nýársdag? Þá hlýtur röðin að vera komin að Hösmaga að bursta smókínginn og halda á fund Bessastaðabóndans.
 
Mig minnir að ég hafi gefið skáldinu smókinginn. Ætli ég verði bara ekki að slá í kjölföt? Bestu kveðjur nafni góður.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online