Thursday, June 21, 2007

 

Dagurinn.......

í gær var lengsti dagur ársins. Ekki langur eins og föstudagurinn langi heldur dagur hinnar nóttlausu voraldar veraldar. Það ríkir staðviðri og litlar horfur á breytingum. Varla að vindur strjúki vanga. Það var sönn lífsnautn að viðra sig í morgun. Kisi kann sér ekki læti af fögnuði. Það er sammerkt með okkur báðum. Nú ber Jónsmessunótt uppá aðfararnótt sunnudags. Það verður ákaflega ljúft að vaka. Döggin freistar. Sá sem ekki finnur neitt gott á þessum tíma hér á norðurhjara er líflaus. Það eina sem vantar er góð regnskúr. Svona hellidemba sem fær landið og gróður þess til að ilma enn sterkar. Hún mun þó örugglega koma. Ég hlakka til að mæta til starfa klukkan 9. Ég hlakka þó enn meira til að hætta brauðstritinu kl. 17. Helgarfrí með birtu í sálinni og vellíðan í kroppnum. Og meiri væntingar til morgundagsins en venjulega. Spennandi dagur af ákveðnum ástæðum. Aldrei að vita nema ég ræði það nánar síðar. Heita handklæðið Jónsmessunæturinnar hefur skipt um hendur. Sumir draumar rætast ekki. Það verður eilítið tómarúm fyrst í stað. Svo koma aðrir enn betri draumar í staðinn. Draumar einlægninnar og heiðarleikans. Heiðarleikans, sem er undirrituðum svo mikils virði. Ég vil að fólk viti hvar það hefur mig. Og ég vil geta treyst öðrum. Aðgátin í nærveru sálar er enn mikilvæg. Það er miklu betra að þegja en segja eitthvað án nokkurrar meiningar. Það getur að sjálfsögðu komið fyrir að aðstæður breytist og hlutir fari öðruvísi en ætlað var. Við þekkjum það öll.

Nú eru allir gluggar opnir hér hjá okkur Kimi. Örlítinn andvara leggur í gegn. Hurðir uppá gátt.Ég hef sagt það áður hér að kaffið smakkast enn betur á svona morgnum. Meira að segja hugsunin um dellu bæjarstjórnarmeirihlutans víkur fyrir fögnuðinum af að vera vakandi, kátur og hress. Það styttist í laxinn. Ég verð á bakkanum þann 27. júní. Áin lítil og tær. Þetta er afmælisdagur föður míns sæla. Þá verða 34 ár liðin frá fyrsta laxinum mínum. Og nákvæmlega 20 ár frá stórlaxadeginum mikla. Sannfærður um að þetta mun verða indæll dagur. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Enn lumar Hösmagi á forvitniskveikjum í fórum sínum ...
 
Gott að vera til á sumrin. Þá víkur pólitískt þras fyrir yndislegu hrossaflugusuði, spóum að vella og agni í leit að fiski (að ónefndri alsælli Þórðargleði allra annarra en mín yfir sífellt slæmu gengi KR).
Nýkominn úr slíkri tveggja vikna ferð til Íslands þar sem logn og blíða var alltumlykjandi.
 
Þetta er alveg voðinn sjálfur með KR. Og þurr eru tár mín eins og hjá Þökk forðum. Ég skil eiginlega ekki þessa vellíðan mína yfir óförum KRinga. Sendi þér nú samúðarkveðjur samt sem áður. Kannski vinna þeir þegar þú lætur sjá þig aftur á landinu blá.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online