Wednesday, April 25, 2007

 

Höll sumarlandsins.

Eftir vinnu í gær hélt Hösmagi á vit fyrirheitna landsins í Grímsnesinu. Í fyrsta sinn á nýbyrjuðu sumri. Græni liturinn orðinn sýnilegur og mér sýndist landið fagna mér. Kannski byggi ég höll á landinu. Eða litla kærleikskotið sem ég nefndi fyrr. Eitthvað ljúft og notalegt að standa á landinu og kaga yfir næsta umhverfi. Ekki spillti veðrið fyrir. Og í morgun hefur líka verið dásemdarveður. Það eru svona morgnar sem næra sálina. Logn og kvak fugla. Með gleðitón í röddinni. Hvað er betra en að vakna að morgni síðla í apríl, útsofinn með tilhlökkun eftir nýbyrjuðum degi? Sem heilsar þér með virktum svo morgundöggin frá Kaffi-Tár smakkast enn betur en aðra morgna ? Ekki margt held ég.
Siggi sænski hefur stundum sagt að eina leiðin til að fá komment á bloggið sitt sé að reyna að stuða svolítið. Ég þarf ekki annað en minnast á sjálfstæðisflokkinn og VG í sömu andránni. Þá á ég vís komment frá þeim Blóðbergsfóstbræðrum. Samt verð ég pínulítið undrandi. Annar þekkir mig allavega mjög vel. Og báðir lesa bloggið mitt. Þeir ættu því báðir að vita að ég er enginn sérstakur aðdáandi sjálfstæðisflokksins. Ég er einfaldlega að virða fyrir mér hið pólitíska landslag. Og reyna að gera mér grein fyrir stöðunni að kosningum loknum. Því miður eru ekki miklar líkur á að VG og SF fái meirihluta í kosningunum. Fyrir mér er mikilvægast að stöðva hryðjuverkin gegn náttúru landsins strax. Það dettur engum heilbrigðum manni í hug að það skelli á kjarnorkuvetur í efnahagslífinu þó dokað verði við. Hluti þess að upplýsa almenning ætti að vera sá að opinbera orkuverðið til álfyrirtækjanna. Þá myndu menn sjá það svart á hvítu hvernig núverandi stjórnarherrar hafa hagað sér. Dæmið af Guðna bakara er lýsandi. Þrátt fyrir mjög hátt heimsmarkaðsverð á olíu er hún ódýrari fyrir hann er rafmagnið frá Búrfellsvirkjun, sem þó er í túnfætinum. Rafmagnið brunar framhjá Guðnabakaríi suður í Straumsvík þar sem Alcan borgar nokkra aura fyrir kílóvattstundina. Það er líka að koma betur og betur í ljós að arðsemisútreikningar Kárahnjúkavirkjunar verða svartari með degi hverjum. Orkuverð stígur alls staðar í heiminum. Á meðan erum við að selja orkuna á spottprís áratugi fram í tímann.Við munum fá mjög háa vexti af ónýttri orku okkar með því að doka við.Stoppa a.m.k. næstu 4 árin og taka á þeim tíma ákvörðun um þau svæði sem eiga að fá ævarandi frið fyrir virkjanaæðinu. Glitnir er að hasla sér völl í orkugeiranum. Þar eru menn í startholunum eftir að kaupa Landsvirkjun. Og ef ríkisstjórnin heldur velli mun þeim verða að ósk sinni. Langbesta leiðin til að koma í veg fyrir þessi áform er að kjósa VG. Því öflugri sem sá flokkur verður að kosningum loknum því meiri líkur eru á farsælli framtíð landsins og fólksins sem byggir það. Og hér kemur amen eftir efninu, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sama hvað við kunnum að deila um smáatriði í pólitík (við erum 95% sammála held ég) þá erum við alla vega hjartanlega sammála um fegurðina í Grímsnesinu. Það væri gaman að líta óðal þitt augum ef maður verður þarna einhvers staðar í grenndinni í sumar.

Bestu kveðjur frá sumrinu í Kaupmannahöfn.
 
Höll sumarlandsins hljómar ekki illa - kannski eg noti thetta sem skaldsagnatitil einhvern tima. Hahaha. Bara grin. Tahd verdur gaman ad koma tharna uppeftir i sumar og leggja a radin um fjallgöngur, skógraekt og hugsanlegar byggingaframkvaemdir. Eg skal hjálpa til eins og eg get, svona ad minnsta kosti thegar eg er a landinu. Bestu kvedjur aftur frá Gotlandinu, Sölvi
 
Bíð spenntur eftir fallegum laugardagsmorgni er ég mæti í Höllina, skrepp síðan og tek 18 holur í Kiðjaberginu. Eftir það er léttgrillað naut og hugsanlega örlítill raupvínsdreytill í Höllinni. Eins og það gerist best.
 
Ekki raupvínsdreytill, heldur rauðvínsdreytill. Aber naturlich.
 
Það er golfvöllur á Syðri-Brú líka. En er það ekki einmitt þannig vð við byrjum oft að raupa eftir að hafa fengið okkur smávegis í ranann? Léttgrillað naut, vín og svo skulum við raupa heilmikið.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online