Tuesday, April 17, 2007

 

Þrumufleygur.

Munurinn á hægri og vinstri er nú stundum enginn. Það sá ég gærkvöldi. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma fór ég í íþróttahúsið til að fylgjast með handbolta. Leikurinn var byrjaður og staðan 4-4. Fyrirfram var ég viss um að þekkja a.m.k. einn leikmanninn. Kom líka fljótlega auga á hann í treyju með tölunni 18 á bakinu. Það hafa örugglega fleiri tekið eftir honum því á nokkrum mínútum hafði hann þrykkt tuðrunni 6 sinnum í netmöskvana. Það lá við að þetta væri svona einskonar desjavú. Minnti mig á það sama og ég hafði séð alloft áður í den. Sú skytta er örvhent og náskyld þessari nýju stórskyttu. Og Hösmaga leiddist þetta ekki. Látum úrslit leiksins liggja milli hluta. En það var nú bara nokkuð stoltur afi sem yfirgaf húsið þegar leiknum lauk.

Síðasti dagur vetrar runninn upp. Það var alveg sérlega indælt að bregða sér út snemma morguns. Eða síðla nætur. Ekki bærist hár á höfði og hitinn vel yfir frostmarkinu. Veðurfræðingar spá því að veturinn og sumarið muni frjósa saman. Þótti það ekki boða gott sumar samkvæmt gömlum fræðum?
Mikill annadagur hjá lögmanni í gær. Þeytingur og hræringur. Holt, Grímsnes, Hreppur og Skeið.Og þetta er það besta við starfið. Stundum kapphlaup við tímann og þá þarf oft að slá í drógina milli staða. Svo verða litlu atvikin minnisstæð. Atvikin sem gera einn daginn skemmtilegri öðrum. Í Hrunamannahreppi er vaxandi sumarhúsabyggð. Þurfti að skoða eitt í gær. Samkvæmt símtali átti lykillinn að vera á vísum stað. Hvernig sem ég þreifaði, fitlaði og rjálaði fann ég hann ekki. Ég hugsaði til kveikjarans og geimverunnar. Gat verið að alíensinn væri farinn að leggja mig í einelti? Það var farið að síga í mig. Tók upp símann og hringdi í eigandann. Hann sagði að lykilskrattinn hlyti að vera þarna. Lyklar gufa ekki upp fremur en Zippóar. Er ekki timburstæða á planinu spurði eigandinn?Jú það passar svaraði ég og hélt áfram að rjála. Svo spurði ég eigandann um hvort ekki væri grænn litur á þakinu. Nei, bara ómálað bárujárn. Andskotinn. Næsta hús við. Ég fór mjúkum höndum um sama stað þar. Sem sagt engin geimvera í spilinu frekar en fyrri daginn. Og lykillinn rann í skrána og ég gat lokið verkum mínum í Hrunamannahreppi þann daginn. Mér leið notalega á leiðinni heim. Fannst þetta virkilega sniðugt. Lenti stóru Toyotunni við kontorinn rétt fyrir 5. Þegar inn kom biðu líka góðar fréttir. Margar eignir seldar í gær. Þetta er nákvæmlega eins og í veiðiskapnum. Stundum er hann við og stundum ekki. Bestu sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Er Magnúsarsonur föðurbetrungur? Hugsanlega lykillinn að nýrri stórveldistíð handboltans á Selfossi? Eða jafnvel í Willstätt?
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online