Sunday, April 22, 2007

 

Úr kýrhaus.

Hún er undarleg umræðan í pólitíkinni um þessar mundir. Þegar 3 vikur eru í kosningarnar snýst umræðan að mestu um skoðanakannanir. Lítið rætt um málefnin. Sjálfstæðismenn þegja þunnu hljóði og eru hressir með að hafa þetta svona. Aldrei í Íslandssögunni hafa orðið meiri tilfærslur á fjármunum frá hinum smærri til þeirra stærri en undir stjórn íhalds og framsóknar undanfarin ár. Og sumir stjórnmálamennirnir eru horfnir úr pólitíkinni eftir að hafa rakað að sér slíkum auði, að þeir vita varla hvað þeir eiga að gera við hann. Á sama tíma er nokkur hluti þjóðarinnar á hungurmörkunum. Nánast enginn minnist á stríðið í Írak og þátt foringja þessara flokka í því. Ef þessir flokkar fá endurnýjað umboð frá þjóðinni til sinna verka munu þeir halda áfram á sömu braut. Landsvirkjun verður einkavædd. Seld fyrir slikk eins og allt hitt. Fólki sem eyðir nokkurhundruðmillum í fertugsafmælið sitt. Fólkinu sem ferðast um á einkaþotum sínum og hefur ekki áhyggjur af biðlistum. Mig klígjar af að hugsa um þetta. Verður flökurt af að sjá Véfréttina í sjónvarpinu. Með anda draugsins á heilanum. Talandi um fyrsta sætið. Velferðina og árangurinn stórkostlega. Bara fjallagrasasúpa ef við kjósum eitthvað annað en núverandi stjórnarflokka. Ég er farin að efast um að formaður framsóknarflokksins hafi nokkra sjálfstæða hugsun í pólitíkinni. Draugurinn vissi þetta líka þegar hann handvaldi þennan mann sem eftirmann sinn. Það eina sem eftir er af framsóknarflokknum er valdasýkin. Kjötkatlastefnan. Allar hinar fornu hugsjónir eru dauðar. Falski fáninn blaktir við hún í golunni. Og fnykinn leggur af dulunni.
Við þurfum að breyta kúrsinum .Tína svolítið af fjallagrösum. Taka þjófa og ræningja og festa þá upp. Eyða biðlistunum. Færa svolítið aftur frá hinum stærri til þeirra sem þurfa á því að halda. Koma í veg fyrir að erlendir auðhringir haldi áfram að mala gullið burt frá þjóðinni. Nytinni úr Kárahnjúkavirkjun eins og Guðni myndi orða það. Það er kannski nóg komið af pólitísku bloggi í bili. Ég ætla að kjósa flokk sem ekki villir á sér heimildir. Langtrúverðugasta flokkinn sem nú er í boði. Og mér er alveg sama þó kjarnorkuvetur skelli á sum fertugsafmælin á næstunni. Diskótekin verða bara að duga.

Í horninu hérna fyrir aftan mig sefur köttur vært. Úttroðinn af rækjum. Þær kostuðu svona helminginn af verði ýsunnar í fiskbúðinni. Ívið ódýrari en dósamaturinn. Og hann át þær með áfergju þó ég hafi keypt þær í Bónus. Þetta voru eiginlega afmælisrækjur. Magnús minn átti afmæli í gær, 21. Ef ég man rétt var mamma Helgu Soffíu líka afmælisbarn. Og Urður, sem um tíma var hálfgildings fósturdóttir mín. Nýbúinn að eignast lítinn kút eins og Maggi. Þetta var góður dagur. Svolítið blautur, en hlýr. Hlustaði lika á Ögmund ræða um fátækt á Íslandi. Hann er í flokknum mínum. Ósköp væri gaman ef hann kippti Guðfríði Lilju með sér inná þing. Það er kona að mínu skapi. Rakar kveðjur úr vorblíðunni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online