Thursday, April 19, 2007

 

333

Gleðilegt sumar. Pistil 333 skrifar postulinn Hösmagi. Sól hátt á lofti en kuldinn flæðir innum gluggann. Gerir líklega ekkert til. Man einhver eftir frostlausum fyrsta degi sumars hér? Kannski hefur verið slagveður svona einn og einn. Ég er alveg hroðalega latur í dag. Svona á mörkunum að ég nenni að draga andann. Hendir mig nú ekki oft. Eins gott að vera í fríi. Eða er það bara fríið sem veldur þessu. Það hefði mátt sveigja Herconinn ef ekki hefði verið 5 stiga frost í morgun. Lítið gaman þegar frýs í lykkjunum.
Ég komst að því áðan að einkaköttur minn, Kimi hinn rauðhærði, á fleiri vini hér í blokkinni en mig einan. Ég var að koma úr bílskúrnum og Kimi með mér. Einn neðrihæðaríbúi tók mig tali og sagðist stundum gefa þessum ketti að éta. Fisk og fleira fínerí. Hefði skál utan við dyrnar úr stofunni sem vísa út á baklóðina. Kötturinn legði sig stundum þarna í sólinni og væri voða góður. Spurði mig svo hvort ég vissi hver ætti þennan garm. Mér kom þetta mjög á óvart en viðurkenndi eignarhald mitt á þessu dýri. Þarna var kominn skýring á því að kötturinn lítur stundum kæruleysislega á matinn sem ég ber fyrir hann, ypptir öxlum og horfir í aðrar áttir. Svona er lífið nú stundum og alltaf gott að eiga góða vini.
Ég hafði nú hugsað mér að planta tré á fyrirheitna landið þann 27. Kannski verður það hægt þó frost sé nú. Það bíður þá aðeins. Þó sumir séu sínöldrandi yfir veðurfarinu hér á klakanum þá koma nú góðir dagar. En svo kemur einnig annað til. Ég þarf að embætta þennan dag. Í nýju skammtímaembætti sem mér áskotnaðist nýlega. Og embættið verður líka til þess að ég get ekki setið við sjónvarpið að kvöldi kosningadagsins. Líklega er það satt sem yngri systir mín segir. Þó að ég sé nú svona og svona þá sé ég ákaflega bóngóður maður. Manni verður stundum hált á því að eiga erfitt með að segja nei. Annars er ég slakur yfir þessu. Engjar áhyggjur af því. Skyldi Steingrímur H. hafa allar áhyggjurnar enn? Af Guðmundi syni sínum dansandi við Gunnu Ögmunds? Og öldunareinkennum framsóknarflokksins? Best gæti ég trúað því. Kaldar sumarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hvurs konar tré á það að vera? Birki? Bið að heilsa rauðkisa, Loki var einmitt með fólk í vinnu út um allan bæ við að gefa sér að éta. Ég frétti af honum niðri við Landsspítala þar sem hann hafði ættleitt eldri hjón til að dekra við sig, þá bjó ég uppi í hlíðum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online