Monday, April 30, 2007

 

Dásemdir.

Vorið er komið. Einn af þessum kyrru, fallegu lognmorgnum. Hér voru 15 gráður í gær og 16 í fyrradag. Það eru svona morgnar sem er það besta við þetta hrjóstuga land. Þegar það byrjar að ilma á ný eftir veturinn. Ég hugsa með fögnuði til veiði og skógræktar. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi vaknað í vondu skapi í morgun. Við kisi alsælir. Það verður bara ágætt að mæta til starfa kl. 9 og eiga svo frídag aftur á morgun. Kannski skrepp ég í Tangavatn með flugustöngina meðferðis. Herconinn og græna þruman eru bæði klár.
Véfréttin var nú nokkuð landsmóðurleg í kastljósinu í gærkvöldi. Reyndar með sömu þvæluna og vant er. Kjötkatlastefnan er þjóðinni jafnmikilvæg og áður. Það má hvorki verða hægri slagsíða á skútunni né sósíalísk vinstri villa. Framsóknarflokkurinn verður að fá umboð til áframhaldandi valda. Valda, sem hann hefur notað til að maka krókinn ótæpilega fyrir gæðinga sína. Þó grútarhaugar íhaldsins séu stórir komast þeir ekki í hálfkvisti við spillingarfjöll framsóknar. Véfréttin sagðist aðspurð ekki vilja einkavæða Landsvirkjun. Ég treysti ekki einu orði af því sem hún segir. Það eru löngu tímabært að koma í veg fyrir helmingaskiptaregluna. VG og SF þurfa að ýta ágreiningefnum sínaum til hliðar. Standa saman og fella þessa ríkisstjórn. Standa vörð um hin sameiginlegu markmið í velferðarmálum og einangra virkjunarliðið í SF. Og það er yfirmáta hlægilegt og hallærislegt að fylgjast með tilburðum stjórnarflokkanna þessa síðustu valdadaga þeirra. Nú á t.d. að auka greiðslur til tannviðgerða á börnum. Nú á að fækka á biðlistum. Byggja helling af hjúkrunarrými fyrir gamalt og sjúkt fólk. Ríkisstjórn þessara flokka hefur troðið á þessu fólki í 12 ár. Gert vini sína að milljarðamæringum með skefjalausri einkavinavæðingu. Slagorð framsóknar á vel við. Einkavæðingu áfram, ekkert stopp. Atvinnumiðlun framsóknar til framtíðar. B fyrir bitlingastefnuna. Látum ekki þennan gjörspillta flokk laumast aftan að okkur einu sinni enn. Það skulum við líka hafa ofarlega í huga hér í Suðurkjördæmi. Ef við gerum VG að næststærsta flokknum hér höfum við sannarlega unnið afrek. Það eru heldur hvorki trúðar né tughúslimir á lista VG. Ég verð sérstaklega ánægður með Atla Gíslason. Þar fá sunnlendingar mjög góðan þingmann. Og von mín er sú að Alma Lísa nái einnig kjöri. Þetta er vel hægt ef fólk lætur sannfæringu sína ráða. Þó Ómar Ragnarsson sé ágætisnáungi mun framboð hans einungis hjálpa íhaldinu. Og það er óþarfi að vorkenna Margréti þó vondir menn hafi " stolið flokknun hans pabba".
Sólin skín glatt. Þetta verður fallegur dagur. Græna þruman gljáir nýþvegin við bílskúrsdyrnar. Ég heyrði í skáldinu mínu á laugardaginn. Óvænt ánægja. Ráðgerum bleikjuveiði í byrjun júní. Frostastaðavatn og þá eru Landmannalaugar skammt undan. Eldri sonurinn mætti gjarnan koma með. Þessi för verður indæl. Ég veit það. Bestu vor- og sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online