Tuesday, December 06, 2005

 

Að stela glæp.

Það er hroðalegt þegar glæpnum er stolið frá manni. Ætlaði að skrifa hér nokkur orð um "fullnægjandi svör". Utanríkisráðherrann og hirð hans. En nafni minn Ólafsson tók af mér ómakið. Lýsi mig hjartanlega sammála honum. Kanarnir hafa reyndar engar áhyggjur af okkur. Tryggari undirlægjur finnast ekki í víðri veröld. Sem betur fer eru ekki allar þjóðir jafnmiklar andskotans dragmellur og við gagnvart Bandarískum stjórnvöldum. Það er spá mín að framferði þeirra verði rannsakað og hið sanna komi í ljós. Hið sanna eðli gömlu afturgangnanna sem nú ráða öllu í bandarískum stjórnmálum. Glæpi þessa hyskis og mannréttindabrot. Það verður fróðlegt að fylgjast með amerísku íslendingunum þá. Það er afleitt að þurfa sífellt að fyrirverða sig fyrir aumingjaskapinn í ríkisstjórn íhalds og framsóknar. Ég ber að vísu enga ábyrgð á henni. Kaus ekki þessa menn. Og ég vona svo sannarlega að margir sem það gerðu opni nú augun og mótmæli þessum ræfilsviðbrögðum þeirra Hordes og allra hinna.

Þessi pistill nafna míns gladdi mitt gamla hjarta. Ég hef sagt það áður að mér finnst voða vænt um þennan gamla fóstbróður skáldsins míns. Ætla ekki að reyna að fá hann yfir til vinstri grænna. Né heldur að halda með öðrum en KR í fótboltanum. Vonandi finnst honum enn gaman að Staupasteini. Og finnst Bob Marley leiðinlegur. Og Hjálmar. Og svona mætti lengi telja upp ólíkan smekk okkar á hinu og þessu. Kannski finnst honum Freddy Mercury bara "nokkuð góður". Vonandi.

Veðrið hér er enn afburðagott miðað við árstímann. Það merkilegasta við þessa daga er hið stöðuga logn hér á Selfossi. Þessum gamla rokrassi. Það er að vísu svo að gróðurinn hér hefur bætt veðrið inní bænum. Stundum gjóluskratti norðan ár þó logn sé hér að sunnanverðu. Reyndar var nákvæmlega sama veðrið hér á sama tíma fyrir 4 árum. Minnist ljóðsins sem varð til þá á fasteignasölunni er undirritaður leit út um gluggann.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum
og öldungis frábært að hugsa og láta sig dreyma,
um þig, kæra vina, og veraldarerlinum gleyma
og vorið mun tendra aftur í fornum glæðum.
Þá mun ég að nýju svífa í hæstu hæðum
er höfugur ilmur þinn kemur með sunnanblænum.

Líklega var Hösmagi fiskihrellir og laxaspillir pínulítið ástfanginn á þessum tíma. Svolítið dreyminn, tregafullur og angurvær. Kannski verður hann svona aftur bráðum? Með bestu kveðjum, sá hinn sami.

Comments:
Ég er ekki frá thví ad mér thyki einmitt Freddy Mercury bara nokkud gódur. Og Staupasteinn er alltaf jafnskemmtilegur. Bestu kvedjur upp i nordvestur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online