Sunday, December 11, 2005

 

Góðviðri.

Enn sama indæla blíðan. Nú eru einungis 9 dagar í vetrarsólhvörf. Þá byrjar sá ágæti mánuður sem nefndur er Mörsugur. Upphafið að sigri birtunnar yfir myrkrinu. Nýtt ár framundan. Hvað skyldi það bera í skauti sér? Vonandi frið og kærleika. Kannski að við, þessi grimmustu kvikindi jarðarinnar, tökum okkur svolítið á. Verðum pínulítið góð hvert við annað. Elskumst og hættum að berjast. Líklega er það þó borin von. Það er líklega of seint að kenna gömlum hundi að skíta eins og Hvergerðingurinn sagði.

Nú er kvefið á undanhaldi. Fékk mér norska brjóstdropa. Svínvirka. Mjög krassandi stöff blandað 25% spíritus. Liggur við að mann klægi í rassboruna eftir að hafa sopið á þessu. Heilsan er sem sagt góð og bara bjart framundan í skammdegismyrkrinu. Og lítið að gerast. Ríkisstjórnin söm við sig. Menn halda áfram að keyra út af og á næsta bíl. Allt hálkunni að kenna eins og vant er. Það væri réttast að þetta blessaða fólk hefði einungis árstíðabundið ökuleyfi. T.d. júní, júlí og ágúst. Þá þyrfti það ekki að keyra á og útaf yfir veturinn.

Streðið byrjar á ný klukkan 9. Lítið um aukafrídaga í þessum mánuði. Bara annar í jólum. Áramótin laugardagur og sunnudagur. Stendur til bóta síðar. Kapitalistarnir að sjálfsögðu glaðir með þetta. Þræla lýðnum út eins og þeim er von og vísa.

Raikonen mættur inn aftur og þrífur feld sinn. Ekki amalegt að fara í skoðunarferð á músaslóðir í svona veðri. Alltaf notalegt og róandi að horfa á kött þrífa sig. Háfgerður kattarþvottur en dugar vel. Nú, nú, gúrkutíðin í algleymingi svo ekki verður meira bloggað í dag. Til hamingju með að vera til, krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online