Friday, December 16, 2005

 

Gnegg og kumr.

Vika til jóla. Smá snjókorn fluxast hér utan við gluggann. Hlýnar aftur seinna í dag. Vonandi verða rauð jól. Í gær voru uppi alvarlegar hugleiðingar um bílaskipti. Vissi vel að hagkvæm fjárfesting væri ekki í aðsigi með þessu. Þeir Fiskihrellir og Hösmagi réðu því ráðum sínum árla dags. Ákváðu að Gráni yrði ekki látinn burt nema sanngjarnt gjald kæmi fyrir. Og bílasalinn taldi víst að þeir félagar væru fastir á króknum. En þeir voru allsendis ekki sáttir með mat hans á Grána. Það varð því ekkert úr viðskiptunum. Og Gráni varð harla glaður. Þegar hann var kominn á stall sinn í bílskúrnum eftir vinnu í gær kumraði hann og gneggjaði af einskærri gleði og vellíðan. Þó hann sé að mestu stál og ál þá er hann með sál. Eins og sumir bílar hafa. Og ekki var Fiskihrellir síður ánægður með málalokin. Er staðráðinn að þiggja þjónustu Grána miklu lengur. Nokkur ár enda gæðingurinn bráðungur enn. Og hugurinn orðinn lygn aftur. Engar frekari pælingar um spól - og skriðvarnir að sinni. Og vonandi er félagi minn frá Laugarvatni hættur að pæla í eilífðarvélinni.

Hyggst halda til höfuðborgarinnar í dag. Það skemmtilegasta við að fara til Reykjavíkur er að maður hlakkar alltaf jafnmikið til að fara þaðan aftur. Finnst þó svolítið vænt um staðinn en vildi samt alls ekki búa þar. Líklega svona voðalegur plebbi. Sveitavargur og útnáralufsa af verstu sort. Hef engar áhyggjur af þessu. Ég verð að segja það. Munur eða Steingrímur sem hafði sífelldar áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum. Margt er mannanna bölið og misjafnt er drukkið ölið. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi, hugsandi um gæðinginn góða sem kumrar á stallinum.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online