Sunday, December 04, 2005

 

Koppalogn.

Drottins dýrðar koppalogn. Lofthiti ein gráða á Celsíus. Dásemdartíð 5. desember. Við Raikonen löngu vaknaðir og báðir búnir að fara í rannsóknarleiðangur. Kyrrð og friður yfir öllu og æ fleiri jólaljós kvikna. Keypti mér ljósleiðarakrans í gær. Hurðakrans. Það á víst að hengja hann á útidyrahurðina. Ég er nú samt búinn að hengja hann á stofuvegginn fyrir ofan sjónvarpið. Það er yfirleitt svo leiðinlegt að miklu betra er að horfa bara á kransinn. Gulur, rauður, grænn og blár. Og fjólublár og hvítur.

Stórbloggarinn MS kommenteraði í gær. Undrandi á leti föður síns við bloggið. Ég segi nú eins og blessað fólkið í útvarpinu: Ja hérna hér. Gott samt að einhver saknar snilldarinnar. Sá til dæmis að ég fæ ekki að vera með á netrúnti Helgu Soffíu. Veit samt um nokkra trygga lesendur. Skáldið mitt á leiðinni á Selfoss í dag. Er að leggja í víking í aðrar sýslur. Set bifreið undir höfðingjann. Áfangastaðurinn er syðsti hluti Íslands. Bara þrælarí framundan hjá undirrituðum. Vel úthvíldur eftir helgina og útbelgdur af reyktum Veiðivatnaurriða. Hreint sælgæti. Alveg skuggalega ljúffengur á bragðið. Kannski fá einhverjir bloggarar að bragða á ljúfmetinu. Laxinn er svo sem ekkert slorfæði heldur. Svo þarf að hugsa fyrir jólalæri, sauðahangikjöti, laufabrauði, síld og öllu hinu. Undirritaður ætlar að kýla vömbina hressilega um jólin. Gæti hugsanlega bætt á mig einu kílói. Svo fer að birta aftur. Nýtt ár með nýjum væntingum. Útivera, veiði og annað gott. Sannarlega tilhlökkunarefni. Vangaveltur komnar af stað um nýjan jeppa. Hemi, 330 hestöfl beint úr kassanum. Kannski eru þetta bara mannalæti. En, veittu þér það sem þig langar til ef þú getur það. Allt í deiglunni og athugun. Vanur að láta mig dreyma. Dásamlegt bara. Kominn tími á eina krossgátu enn. Með ljúfum kveðjum, ykkar enn og aftur einægur Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online