Sunday, December 18, 2005

 

Góður, betri....

bestur. Jólavertíðin í hámarki. Undirritaður skælist með öllum hinum. Mér kemur gamli biskupinn í hug. Fyrir nokkrum árum var hann að hugleiða hvort ekki væri kominn tími til að leggja jólin niður sem slík. Blöskraði líklega kaupæðið og Mammonsdýrkunin. En við höldum áfram. Fögnum vetrarsólhvörfum og hækkandi sól. Gerum okkur dagamun í svörtu skammdeginu. Hugsum ekkert voðalega mikið um Jesús. Et og drekk sála mín og ver svo glöð.
Ég keypti mér Nóa konfekt í gær. Svona til að maula um jólin. Stór stæða af þessu nammi í Nóatúni. Og spjald yfir stæðunni: Betra verð í Nóatúni. 1.980 kr. kílóið. Átti erindi í Bónus og þar var líka konfektstæða. Kílóverð 1.789 kr. Mismunur 11,06% En Bónus er náttúrlega bara plebbabúð. Varla aðrir en útnárar, vargar úr sveitinni og aflóga kommar sem láta sjá sig inní slíkum búðum. En í mínum huga eru 1.789 kr. betra verð en 1.980 kr. Í sumar birtust líka stór og vönduð plaköt í Nóatúni: Nóatún lækkar vöruverð. Varð glaður að sjá þetta. Sveif léttstígur að borðinu með heita matnum. Þegar ég greiddi fyrir matinn fannst mér einhvernveginn að hann hefði lítið lækkað. Skoðaði verðmiðann og sá að maturinn hafði hækkað úr 980 kr. pr. kg. í 1.180 Hið lækkaða vöruverð var orðið 20,4 % hærra. Dettur neikvæði afslátturinn í Lyfju í hug. Óravíddir stærðfræðinnar eru óutreiknanlegar. Betra verður verra og hið lága hærra. Eins og KN sagði
Góður, betri bestur
burtuvoru reknir.
Illur verri verstur
voru aftur teknir.

Nokkrum dögum seinna sagði ég við eina kassadömuna sem ég kannaðist við að Nóatún væri bara djöfuls okurbúlla. Auglýsti lækkað verð og svo hækkaði maturinn um 20%. Elsku vinur veistu ekki að kjötið var að hækka svo mikið. Og allt annað í búðinni hefur snarlækkað. Auðvitað var þetta haugalygi. Þetta eru bara mjög slæmir verslunarhættir. Ekki einu sinni olíumafían reynir svona kúnstir. Hvað sem sagt er um þá Bónusfeðga þá er það bara staðreynd að flest er þar ódýrara en annarsstaðar. Í minni vitund eru 2x2 ennþá 4.

Hér bærist nú ekki hár á höfði. Vetrarkyrrð í myrkri. Rakonen með röndótt skott sitt kannar mýsluslóðir. Kemur svo inn og gætir heimilisins meðan Hösmagi þrælar fyrir mat okkar. Sambúðin gengur vel. Rífumst ekkert. Erum vinir og góðir hvor við annan. Indælt.

Fékk mér snarl með skáldinu og Helgu á laugardaginn. Ræddum gagn heimsins og nauðsynjar. Svona pínu. M.a. barst í tal heilinn í Bubba Morthens. Undirritaður komst að þeirri niðurstöðu að hann væri á stærð við hænuegg. Læt ósagt hvað þeim fannst. Kannski er hann líka á stærð við uppþornaða mandarínu. Aldrei heyrt slíkan ávöxt tala af innblásinni speki. Nóg af níði í bili. Ykkar Hösmagi, enn pælandi í matematikkinni.

Comments:
Takk fyrir síðast. Keilan féll niður en það er nú einu sinni það sem keilur eiga að gera.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online