Tuesday, December 13, 2005
Eilífðarvélin.
Undirritaður er enn að pæla í bílaskiptum. Annan daginn, ekki hinn daginn. Ég var að ræða þetta við kunningja minn um daginn. Hann spurði mig hvort það væri eitthvað að jeppanum mínum. Nei, hann er í fínu lagi. Af hverju ertu þá að vesenast í þessu? Þetta er auðvitað rétt og satt. Og ég afskrifaði delluna - þann daginn. Þetta minnir mig á skólafélaga minn á Laugarvatni. Hann pældi mikið í eilífðarvélinni. Ég sagði við hann si svona. Hættu þessum pælingum, þú veist vel að þetta er ekki hægt. Og hann svaraði að bragði: Auðvitað veit ég að það er ekki hægt að búa til eilífðarvél. Bætti svo við: En ef ég skyldi nú detta oná það. Jeppinn minn hefur allt sem góður bíll þarf að hafa. En samt halda pælingarnar áfram. Spólvörnin, skriðvörnin, þráðlaust GSM samband, 8 strokka V Hemivélin, sem gengur bara á 4 strokkum meðan ekki er þörf fyrir hina 4. Og ótalmargt annað. Ég hef sagt það áður að bíladellan er í genunum. Og notagildi þessarar uppfinningar er mikil. Aldrei myndi þó flökra að mér að ganga til liðs við vini einkabílsins. Yfirgengilega fágengilegur félagsskapur. Læt þetta örugglega bíða. Sé til þegar afgangsaurarnir nægja fyrir nýjum glæsivagni.
Annars er bara allt gott. Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang, mælti Steinn Steinarr. Og jólin nálgast óðfluga. Gamli jólakvíðinn er ekki lengur til staðar. Vildi að það ætti við um alla. En því miður er það nú ekki svo. Margir í þessu allsnægtaþjóðfélagi sem hlakka lítið til þessarar hátíðar. Enda felast allsnægtirnar í því að margir eru við fátæktarmörkin. Sumir reyndar langt undir þeim. Meðan einkavæðingardrengirnir vita ekki aura sinna tal. Heimta samt alltaf meira og meira. Finnst það ofureðlileg umbun fyrir snilld sína. Og forstjórarnir kaupa orgel í kirkjur. Og svo " styðja þeir menninguna". Ekki vafamál á hvorn staðinn þeir fara þegar þeir yfirgefa táradalinn. Ekki eins víst með mig. Hef ekkert lagt í orgelsjóð og því spurning um inneign mína þegar þar að kemur. Den tíð, den sorg. Bestu, kveðjur, ykkar Hösmagi.
Annars er bara allt gott. Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang, mælti Steinn Steinarr. Og jólin nálgast óðfluga. Gamli jólakvíðinn er ekki lengur til staðar. Vildi að það ætti við um alla. En því miður er það nú ekki svo. Margir í þessu allsnægtaþjóðfélagi sem hlakka lítið til þessarar hátíðar. Enda felast allsnægtirnar í því að margir eru við fátæktarmörkin. Sumir reyndar langt undir þeim. Meðan einkavæðingardrengirnir vita ekki aura sinna tal. Heimta samt alltaf meira og meira. Finnst það ofureðlileg umbun fyrir snilld sína. Og forstjórarnir kaupa orgel í kirkjur. Og svo " styðja þeir menninguna". Ekki vafamál á hvorn staðinn þeir fara þegar þeir yfirgefa táradalinn. Ekki eins víst með mig. Hef ekkert lagt í orgelsjóð og því spurning um inneign mína þegar þar að kemur. Den tíð, den sorg. Bestu, kveðjur, ykkar Hösmagi.