Sunday, December 25, 2005

 

Hálfsjálfvirkur róbóti.

Sælir bloggarar. Jóladagur og 8 stiga hiti á ísaköldu landi. Sérlega ljúft jólaveður. Sit hér með indælt kaffi og doktor Raikonen, yfirköttur í Ástjörn 7, viðrar nef sitt og skott. Ég fékk nytsama jólagjöf í gærkvöldi. Sópur og skúringafata í sömu einingu. Maður tekur lokið af endanum og hellir hálfum lítra af vatni ofaní rörið. Bætir svo nokkrum dropum af sápulegi við. Skimar svo í kringum sig á parketinu og flísunum. Og finnur skítablett. Svo ýtir maður aðeins á hnappinn á enda sóflsins og þá ýrist vökvinn yfir blettinn. Þá stígur maður létt á bensíngjöfina og skíturinn bókstaflega hverfur eins og dögg fyrir sólu. Gufar bara upp. Parketið geislar og þú speglar þig í flísunum. Það eina sem vantar er fjarstýring á þenna vélsófl. Og þetta er svona óbein innspýting. Afar hugvitsamlegt og notagildið óumdeilt. Kannski get ég kennt Raikonen á þetta hálfsjálfvirka vélmenni. Þá hringi ég í fjölmiðlana.
Í dag er lítið annað að gera en liggja í leti og kýla vömbina. Eftir innkaupum Hösmaga mætti halda að hér byggi 7 manna fjöslkylda.Sauðakjöt, pækillæri, sem er mikið lostæti. Svo mikið að það er eiginlega lostalæri. Svo er það jólasíldin, hátíðasíldin, Dinkelbergerbrauðið, reykti Veiðivatnaurriðinn og Ölfusárlaxinn. Kleinur og flatkökur frá Immu vinkonu minni, ódýrara konfektið frá Jóhannesi og slatti af drykkjum. Gull-, rjóma og gráðostur. Camenbert. Vodka, koníak, rauðvín Whyskí og bjór. Maltið og appelsínið frá Agli sterka og svo auðvitað eðaldrykkurinn Sósa Sóla. Rækjur og harðfiskur fyrir dýrið. Væsir sem sagt ekki um okkur vinina hér. Verður þó eitthvað eftir fyrir Helgu á skáldið mitt á morgun.
Fiskihrellir hefur lokið við kaffið. Raikonen kominn inn aftur og sestur að rækjunum. Við sendum ykkur öllum jólakveðjur. Sæl að sinni, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online